Thursday, October 15, 2009

Kanína

Þá er kanínan sem ég var að prjóna handa HB tilbúin. Það er búið að taka ansi laaaaangan tíma að klára hana.
Strípuð lítur blessunin svona út.
En þar sem ekki þótti við hæfi að hafa hana svona bera fékk hún bleikan kjól og ég lærði að taka betri myndir. Furðulegt að það skuli þurfa að stilla myndavélar svona. Mér finnst að þær eigi að vera imbaprúfar og ég þurfi bara að súmma inn og smella af.

Svaka fín en ekki alveg í fókus.

Stoltur eigandi ( sem er að prjóna skó á kanínuna sína ). Þetta eru 2 sætar saman.
Kanínan og babúskan.
Uppskriftina fékk ég í bók sem heitir Knitted Toys og er eftir höfund sem heitir Fiona McTague. Ég hef prjónað stærri kanínu úr sömu bók og var hún ekki síðri en þessi. Mér finnst frekar gaman að prjóna svona fígúrur svo nú verð ég að finna mér nýja og passa að vera ekki eins lengi og ég var með þessa.

Sunday, October 11, 2009

Handstúkur og peysa

Þá er ég búin með handstúkurnar sem tengdamamma fær í afmælisgjöf. (Afmælið reyndar liðið fyrir nokkru síðan) Ég er bara ánægð með þær og á örugglega eftir að útfæra þær á annan hátt. Ég ætla að setja niður uppskriftina og birta hana á blogginu. Já þetta er sem sagt eftir mig. Fyrsta hönnunin sem ég ætla að birta opinberlega.

Gatamunstrið var einfalt og kemur fallega út sem lína í stúkunni.
Nú um helgina tókum við mamma slátur svo það er búið. Amma kom og hrærði fyrir okkur eins og hún hefur gert frá því ég man eftir mér. Mikið svakalega er ég fegin að vera búin að þessu. Og það sem þetta smakkaðist vel í gærkvöldi. Ummmmm....
Ég skellti mér á lokadag útsölunnar í Skröppu og keypti mér slatta af pappír til að skrappa með. Það er svo mikið til af fallegum pappír að það var verulega erfitt að hemja sig. Ég bara skil ekki hvað það er mikið til af fallegu hráefni til að vinna með. Hvernig er hægt að gera ekki handavinnu þegar það er svona mikið fallegt til?
Ég stóðst ekki mátið að setja inn myndir af Herdísi Birnu í peysunni sem ég prjónaði handa henni í sumar. Hún er ánægð með peysuna en finnst hún stinga aðeins. Nú þegar farið er að kólna getur hún notað peysuna því þá er hún í einhverju síðerma undir.

Og svo ein mynd af munstrinu í nærmynd. Þarf reyndar að fá mér betri myndavél því þessi nær ekki að fókusa nógu vel. Súrt..

Monday, October 5, 2009

Alltaf að prjóna

Það er alveg ótrúlegt hvað það er gaman að byrja á nýju prjónaverkefni. Ég fyllist spennu þegar þannig er því það er svo gaman að sjá hvernig litirnir koma út, hvernig munstrið verður og þannig áfram.
Síðustu vikur hef ég byrjað á nokkrum nýjum verkefnum. Sum þeirra eru jólagjafir og nú er ég búin að lofa sjálfri mér því að vera búin með prjónaðar jólagjafir fyrir Þorláksmessu. Síðustu jól sat ég fram yfir miðnætti aðfaranótt aðfangadags til að klára síðustu gjöfina. Þegar ég hafði lokið við hana og fór að skoða afraksturinn sá ég mér til mikills hryllings að ég hafði prjónað 2 útprjónaða norska vettlinga á sömu hönd. Þetta aðfangadagskvöld fékk systir mín einn vettling í jólagjöf og svo hinn í áramótagjöf.

Næstu 2 myndir sýna vettlinga sem ég fann á Garnstudio vefnum og er að prjóna. Garnið sem ég nota er Drops Alpaca og er ótrúlega fallegt garn.
Á þessari mynd sést lófasvæðið.

Þessi mynd sýnir handarbakið.Svo er ég að prjóna sokka handa einhverjum.....

Síðan eru það handstúkur sem eru dáldið háar. Þegar ég er búin með þær og get tekið almennilega mynd ætla ég að setja uppskriftina á vefinn. Ég er búin að bögglast í gegn um þær og lagað uppskriftina til svo hún verði nothæf.