Monday, February 22, 2010

Öðruvísi lopapeysa

Stærð: M

Garn: Plötulopi (2 plötur), skrautgarn 1 fyrir prjóna nr. 2,5 – 3 (4 - 5 dokkur), skrautgarn 2 með móhair fyrir prjóna nr. 5 (3 dokkur).

Prjónar nr. 5

8 tölur

Prjónfesta: 10 x 10 cm eru 17 lykkjur og 24 umferðir á þveginni prufu.

Bolur:
Bolurinn er prjónaður í einu stykki, fram og til baka. (Ef hann er prjónaður heill þarf að bæta við 2 – 4 lykkjum til að klippa stykkið í sundur.)

Fitjið upp 148 lykkjur með skrautgarni 2 á prjóna nr. 5.

Prjónið stroff á eftirfarandi hátt: *Ein umferð slétt, tvær umferðir 1 lykkja slétt og 1 lykkja brugðin*. Prjónið þessa 3 prjóna þar til allt stykkið mælist 5 cm.

Eftir það er prjónað slétt prjón með einföldum plötulopa og skrautgarni 1. Prjónið þar til allt stykkið mælist 24 cm.

Nú er tekið úr fyrir mitti: Fellið af 4 lykkjur jafn dreift yfir stykkið þ.e. 1 lykkja á fyrra framstykki, 2 lykkjur á bakstykki og 1 lykkja á seinna framstykki. Prjónið 3 umferðir. Fellið aftur af 4 lykkjur jafn dreift yfir stykkið. Núna eru 140 lykkjur á prjóninum.

Prjónið nú þar til allt stykkið mælist 31 cm. Þá er aukið um 4 lykkjur jafnt dreift yfir stykkið. Nú eru 144 lykkjur á prjóninum.

Prjónið nú þar til allt stykkið mælist 41 cm. Þá eru prjónaðar 31 lykkja, 8 lykkjur eru settar á band og geymdar, prjónið 66 lykkjur, 8 lykkjur eru settar á band og geymdar, prjónið 31 lykkju.

Nú er þetta stykki geymt.

Ermar:
Fitjið upp 41lykkju með skrautgarni 2 á prjóna nr. 5. Tengið í hring og prjónið stroff eins og á bol þar til ermin mælist 5 cm. Skiptið þá yfir í lopa og skrautgarn 1 og prjónið slétt prjón þar til allt mælist 14 cm. Aukið þá út um 2 lykkjur undir ermi á 10 cm fresti þar til 54 lykkjur eru komnar á prjóninn. Prjónið þar til ermin mælist 50 cm. Setjið þá 8 lykkjur af undirerminni á hjálparprjón eða band og geymið ermina.

Prjónið hina ermina eins.

Berustykki:
Tengið saman bol og ermar á eftirfarandi hátt: Prjónið 31 lykkju af bol, prjónið ermi við, prjónið bakstykkið, prjónið ermi við, prjónið 31 lykkju. Nú er búið að tengja saman þá hluti sem mynda berustykkið.
Prjónið þá á eftirfarandi hátt:
Prjónið 14 umferðir. Prjónið þá saman 7. og 8. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 4 umferðir. Prjónið saman 6. og 7. lykkjurnar allan hringinn.
Pjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 5. og 6. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 4. og 5. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 3. og 4. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 4 umferðir. Í næstu umferð eru felldar af 7 lykkjur jafn dreift yfir umferðina.

Nú eru alls 80 lykkjur á prjóninum. Klippið garnið frá og skiptið yfir í skrautgarn 2
Prjónið hálsmál.

Hálsmál:
Prjónið með skrautgarni 2 yfir lykkjurnar 80 eins stroff og er á bolnum. Prjónið 6 cm. Fellið af.

Vinstri kantur:
Prjónið upp 114 lykkjur með lopa og skrautgarni 1 á prjóna nr. 5 meðfram allri hliðinni, hálsmál meðtalið. Prjónið stroff eins og á bol. Prjónið 6 umferðir. Prjónið síðan 1 umferð með skrautgarni og fellið af.

Hægri kantur:
Er prjónaður eins og vinstri kantur nema að í þriðju umferð er fellt af fyrir hnappagötum þannig: Prjónið 9 lykkjur, slá bandinu yfir prjóninn og prjónið 2 lykkjur saman. *Prjónið 12 lykkjur, sláið þá bandinu yfir prjóninn og prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtakið frá * til * þar til 8 hnappagöt hafa myndast.

Frágangur:
Lykkið saman undir höndunum, gangið frá endum og saumið tölur á peysuna.

Thursday, February 18, 2010

Teppið

Ég gleymdi að setja inn mynd af teppinu hennar mömmu eins og það lítur út (allar myndirnar saman). Gullfallegt og hangir upp á vegg hjá HB.


Tuesday, February 16, 2010

Bútasaumur

Ég ákvað að setja inn myndir af bútasaumsteppi sem mamma mín gaf heimasætunni í afmælisgjöf. Þetta er með fallegri teppum sem ég hef séð og hún er núna búin að búa til eitt teppi handa öllum þremur heimasætum fjölskyldunnar.
Það sést ekki nógu vel á myndunum að hún er búin að sauma út í þær til að gera þær flottari.
Fyrst er það skautastelpan því HB er að æfa skauta.

Svo er það blómastelpa og mér finnst það skemmtileg tilviljun (eða ekki) því á tímabili vildi HB láta kalla sig "Blóma" því það var svo flott nafn. (Hún var líklega um 4 - 5 ára þá)

Svo er það hauststelpan

og að lokum sumarstelpan.

Gó mamma, halda svona áfram því þetta er svo flott hjá þér.