Friday, May 14, 2010

Það sem er í gangi

er eins og venjulega allt of mikið. Það er svo erfitt að takmarka sig þegar svona margar freistingar eru í gangi.
Ég ákvað að setja inn mynd af garninu sem ég var að lita um daginn. Nú er ég búin að vinda það upp í hnykla og, án gríns, er það ekki minna girnilegt heldur en garn í garnbúð.

Í einum saumaklúbbnum mínum var sett í gang verkefni sem fólst í því að það átti að prjóna úr einni plötu af lopa og einni dokku af skrautgarni. Hér er mynd af því sem ég er að gera en ég ætla ekki að segja strax hvað þetta er. Kanski er það augljóst og ég ferlega hallærisleg að halda að það sjáist ekki. Verst hvað myndavélin er leiðiðnleg með að yfirlýsa myndir hjá mér. Garnsamsetningin sést ekki nógu vel hvað þá að liturinn njóti sín.

Í öðrum saumaklúbbi sem ég er í fór í gang umræða prjónamerki sem Guðný hafði búið til. Þau voru ferlega flott hjá henni og mér skilst að sambærileg merki séu seld dýrum dómi þar sem þau fást. Guðný sendi okkur hópnum lista yfir það sem þurfti til að búa til merkin og svo á að búa til merki í næsta saumaklúbbi. Ég get verið frekar óþolinmóð þegar eitthvað skemmtilegt er í boði svo ég bara keypti það sem mig vantaði og bjó til 4 prjónamerki. Stelpur, ef þið lesið þetta, þá á ég fullt af perlum svo það þarf ekki að kaupa þær.


Hér sjást litirnir aðeins betur.

Eins og venjulega er stafsetning og orðalag á ábyrgð Sólveigar systur.

Monday, May 3, 2010

Ótrúlega

flott síða sem Ólöf systir benti mér á. Þessi kona er algjör snillingur með nálina og ég varð dáldið montin því sys sagði að verkin hennar minntu hana á Blá útsaumsverkið mitt.

Slóðin er rebeccasower.typepad.com

Þetta er síða fyrir þá sem hafa áhuga á að sauma frjálst og föndra ótrúlega fallega hluti. Sólveig, þú gætir haft gaman af þessu eins og ég og Ólöf.

Síðan hennar er að vissu leiti ljóðræn og það er gaman að fletta í gegn um hana og skoða.

Sunday, May 2, 2010

Matarlitir

eru skemmtilegir og hægt að nota þá í annað en bara mat. Nýjasta nýtt hjá mér er að lita garn með matarlitum. Ég var í saumaklúbbi með skemmtilegum vinkonum og Hildur sagði okkur frá þessari snilld að nota matarliti í garnlitun.

Daginn eftir klúbb tíndi ég til slatta af óspennandi garni.


Allt gamalt sem ég hef ekkert gert með. Hvíta garnið var ekki eins hvítt og það lítur út fyrir að vera á myndinni.
Næst var farið í búðina og keyptur grænn og rauður matarlitur ásamt ediksýru.
Svo var byrjað. Ég ákvað að byrja með græna litinn því ég er svo veik fyrir öllu sem er grænt.

Þetta mallaði í pottinum í dáldin tíma og lá síðan þar til enginn litur var eftir í vatninu.

Og vola, svo fínt, grænt garn. Garnið er mislitt því ég setti það mishratt ofan í vatnið til að fá áferðina.
Nokkrum dögum seinna var sett í rauða litun. Þá litaði ég svakalega appelsínugult garn sem ég gat ekki notað í neitt. Útkoman var þessi heiti, rauði litur sem tónar út í appelsínugult.

Nú er bara að láta sér detta eitthvað í hug að búa til úr garninu.

Þetta er svo spennandi að ég hugsa að það endi með því að ég verði búin að lita fullt af gömlu garni og afgöngum. Nú er bara að fara og fá sér fleiri liti.
Ég þarf líka að finna mér liti sem lita bómull. Það skal tekið fram að matarlitirnir virka á ull og ullarblöndu en bómullarband sem ég batt hespurnar með tók ekki snefil af lit.