Monday, June 28, 2010

Ég elska

að prjóna úr þessu garni sem heitir Fame trend og er frá Marks & kattens. Litirnir eru alveg ótrúlega flottir og hvernig þeir tvinnast saman.

Ég ákvað að prjóna mér sokka úr hnotu sem ég keypti mér einhvern tíman í vetur. Þar sem ég er svo hrifin af því að byrja á tánni ákvað ég að nota þá tækni.

Þar sem mér finnst líka svo gaman að finna upp hlutina sjálf ákvað ég að hanna mér sokka sem byrja á tánni. Eftir að hafa byrjað að minnsta kosti þrisvar sinnum (of vítt, of breið tá, of þröng tá) var ég með þetta á prjónunum og fótunum.

Mér fannst þetta líta alveg ljómandi vel út og var meira að segja með svo mikla hönnun á sokkunum að ég setti gataprjón sem munstur í þá.

Eftir því sem sokkurinn stækkar er ég ánægðari. Víddin er alveg eins og ég vil hafa hana, litirnir flottir svo ekki get ég kvartað.

Svona líta þeir út núna. Hællinn er ótrúlega auðveldur. Hefðbundi hællinn er auðveldur ef maður kann hann en ef ég væri að byrja að prjóna sokka mundi ég vilja læra þennan hæl því hann er mörgu sinnum auðveldar en sá hefbundni.
Þar sem mér er lífsins ómöglegt að vera bara með eitt stykki í gangi í einu ákvað ég að byrja á litríkri stelpupeysu. Sjáum hvað verður úr henni og hver fær.

Þar sem myndirnar af fína vestinu sem ég hannaði og prjónaði voru svo glataðar ákvað ég að setja inn nýjar myndir af því.

Neðst var breiður klukkuprjónsbekkur. Mér fannst skemmtilegt að breyta frá því að hafa stroff.

Svona lítur það út að aftan og

svona lítur það út að framan. Garnið er silkimjúk blanda af merino ull og silki. Getur varla stungið nokkurn mann. Einnig var það drjúgt því ég notaði bara þrjár hespur í vestið.
Svo er ég alltaf að lesa. Ég ákvað samt að hætta að setja inn allar bækurnar sem ég les en ætla að setja inn bækur sem eru það góðar að ég verð að láta vita að ég hafi lesið þær. Ég er samt bara að ná að lesa tvær bækur í júni en náði að lesa fjórar bækur í maí (reyndar hraðlas ég tvær þeirra).
Í gær hélt ég upp á afmælið mitt og gleymdi náttúrulega að taka myndir. Ég bauð upp á tvenns konar súpur og var önnur Mexico súpa með nacho og öllu tilheyrandi, hin var kölluð Argentínusúpa þar sem Argentína var hitt liðið sem var að keppa í fótbolta þetta kvöld. Hún var reyndar rjómalöguð sveppasúpa með hráskinku út í. Ferlega góð og uppskriftin er á ms.is. Síðan var boðið upp á kökur á eftir. Mér fannst mjög skemmtilegt að fá næstum alla til mín, vantaði hluta af noregsliðinu og karlmennina í Mosarima. Þetta er eitt af því sem mér finnst gefa lífinu gildi, að hitta fólkið sitt og eiga góðar stundir með því.

Wednesday, June 9, 2010

Fullt búið

af prjónadóti. Nú er orðið svo langt síðan ég setti eitthvað inn að ég er búin að klára nokkur stykki síðan. Fyrst má nefna norska peysu sem ég gerði á HB. Hún valdi munstur og liti sjálf.

Mér finnst peysan ferlega falleg og vel valin hjá henni. Svo var líka mjög gaman að prjóna hana enda var ég ekki nema rúman mánuð með hana.

Ég bjó til nokkrar prjónanælur. Þegar maður er orðin svona mikil prjónakona er ekki lengur hægt að nota garn til að merkja fyrir útaukningum eða öðru. Guðný sem er með mér í handavinnusaumaklúbbi kenndi mér að búa til svona nælur. Það er verst hvað myndin er léleg en myndavélin yfirlýsir svo mikið að litirnir sjást ekki almennilega. Svo var ég að reyna að dekkja myndina í tölvunni og það fór ekkert sérstaklega vel.


Karen er búin að fá húfu við peysuna sína. Kötturinn er sá forvitnasti sem ég veit um og má ekki missa af neinu. Hann stakk sér inn í mynd um leið og ég smellti af.

Þetta er klassískt húfusnið og ég er að hugsa um að setja það inn á vefinn. Það sem mér finnst svo gott við það er að það lokar vel á eyrun. Svo er bara að stilla lykkjufjöldann af þannig að munstrið passi við. Ég notaði sama munstur og er neðst á peysunni sem húfan er við og það kom bara vel út.


Þetta er ekki búið. Eitt stykki klassískt sjal er líka tilbúið. Maður verður að hafa eitthvað að prjóna við sjónvarpið og hvað er betra en sjal?

Ég bara spyr?


Jú, það er líka ferlega fínt að prjóna lopapeysu fyrir framan sjónvarpið. Kanski ekki akkúrat munsturbekkinn en allt þetta einlita er fínt að prjóna fyrir framan TV svo það verði ekki leiðinlegt.

Gunni fékk þessa fínu peysu svo nú er hann kominn í eina sem er ekki trosnuð framan á ermunum, neðan á kanntinum og í hálsmálinu.

En þetta er ekki búið því ég gerði líka vesti sem ég hannaði alveg sjálf, gerði prufu og reiknaði út.
Það var náttúrulega líka gaman. Garnið er ótrúlega flott enda blanda af merinoull og silki. Svo er það sjálfmunstandi svo ég þurfti bara að prjóna án þess að hugsa.

Þá er upptalið það sem ég er búin að vera að gera undanfarið. En ......

það er ekki hægt að vera aðgerðarlaus svo ég byrjaði í gær á sokkum sem ég byrja á tánni. Ég er að prófa að gera þá án þess að nota munstur. Það verður spennandi að sjá hvernig fer...