Saturday, November 26, 2011

Dúkkusokkabuxur

Meðan stelpan mín var lítil var hún dúkkumamma. Og ég þar af leiðandi dúkkuamma. Eins og allar handlagnar ömmur bjó ég til sitt lítið af hverju handa dúkkubarninu. Til dæmis gerði ég þó nokkuð af sokkabuxum handa dúkkunni. Nú á ég 7 ára systurdóttur sem er dúkkumamma og mig langaði að gera sokkabuxur handa henni.

Sokkabuxurnar eru ótrúlega einfaldar og kosta ekkert nema tíma og tvinna. Ég man ekki lengur hvaðan ég fékk aðferðina til að búa til sokkabuxurnar.

Það sem gert er:
1. Velja fallega sokka sem eru orðir það slitnir að þeir eru ekki notaðir lengur.

2. Hæll, il og tá eru klippt í burtu og síðan klippt upp eins og myndin sýnir.

3. Hliðarnar eru síðan saumaðar saman og mynda þær saum sem liggur yfir kvið og rass (fram og aftur)
4. Sokkarnir eru lagðir saman þannig að það myndast skálmar á sokkabuxurnar, sem sagt saumur á móti saum þar sem stykkin voru saumuð saman í skrefi 3.

5. Nú eru skálmarnar saumaðar saman í einum saum.

6. Sokkarbuxunum er nú snúið yfir á réttuna og eru tilbúnar fyrir heppna dúkku og dúkkumömmu.

Friday, November 4, 2011

Wolves

Þegar sonurinn biður um eitthvað prjónað frá mér fær hann það meðan það er innan skynsemismarka. Hann kom um daginn til mín og bað mig að prjóna fyrir sig húfu með merki Wolves á. No problemo.

Ég lét hann fá það verkefni að finna mynd af úlfamerkinu og lét hann fá rúðustrikað blað fyrir prjónamunstur svo hann gæti teiknað munstrið upp fyrir mig. No problemo.

Ég ákvað að prjóna bara eitt merki og nota myndprjón svo það væru ekki endar þvert yfir. Í staðinn fékk ég fullt af endum að ganga frá. Hvenær færir maður ekki fórnir fyrir gott verk.

Úlfahúfan er nú tilbúin og er notuð næstum á hverjum degi. Ég var ótrúlega fegin að hann heldur með þessu liði í ensku deildinni því ekki hefði ég viljað prjóna mancester merkið. Það hefði verið meiriháttar mál.
I knitted this Wolves cap for my son. I let him do the sketching and drawing on a marked paper, then I knitted it for him. He loves it and wear it almost every day.