Monday, December 28, 2009

Jólagjafirnar - prjónuðu

Þá er komið að því að sýna jólagjafirnar sem ég prjónaði og gaf. Ég hef reyndar ekki tekið myndir af bleiku peysunni sem ég gerði svo ég verð að setja inn myndir af henni síðar.

Fyrst er að sýna vettlinga sem ég gerði fyrir pabba minn. Ég prjónaði þá úr alpaca garni sem ég keypti í Rúmfatalagernum og er þetta garn æðislegt viðkomu. Það er mjúkt og gefur fallega áferð.
Uppskriftina fann ég á ganstudio.dk. Þar eru þeir reyndar prjónaðir úr fíngerðara garni en með því að auka grófleikann fékk ég stærri vettlinga sem pössuðu á karlmannshönd.

Næst er að sýna bangsan sem Katrín fékk. Á einhverju þarf að byrja og ég byrjaði á því að prjóna fæturnar á bangsann. Nauðsynlegt að hafa undirstöðurnar traustar...

Næst var að klára að prjóna alla líkamsparta og sauma þá saman. Þar sem hvíta garnið kláraðist varð bangsinn að fara í nærbuxur og fékk hann þessar líka fínu bleiku.

Því næst var að staðsetja eyrun á hann og sauma andlitið á.

Að lokum var að dressa bangsa upp og úr varð þessi líka fíni ballerínubangsi í tútupilsi og allt...

Nú er komið að sokkunum sem ég prjónaði. Ólöf systir fékk þessa útprjónuðu sokka. Þeir eru með gatamunstri sem er þannig að ekki var hægt að horfa á sjónvarp þegar það var prjónað. Það varð að einbeita sér algjörlega að munstrinu.

En afraksturinn var þannig að það var þess virði að einbeita sér svona að þeim. Ég var svakalega ánægð með sokkana og ætla að prjóna svona handa mér líka....... einhverntíman.


Ein mynd í viðbót, þeir eru svo flottir ;-)

Ruben fékk líka sokka í jólagjöf. Þeir voru þægilegir í prjónun en mjög fínir. Munstrið var skemmtilegt og kom vel út í sokkunum. Mér finnst miklu skemmtilegta að prjóna svona sokka heldur en hefðbundna með stroffi og sléttum prjóni en engu munstir.

Bæði sokkapörin voru prjónuð úr Sisu ullargarni og kom það mjög vel út í þeim.

Ég þarf að útvega mér myndir af peysunni sem Karen fékk. Ég skil bara ekkert í mér að hafa gleymt að mynda hana. Það hefur verið komið einum of mikið jólastress í mig þarna rétt fyrir jól.

Tuesday, December 15, 2009

Knitty komið út

Veiiiii, Knitty er komið út. Þetta er ókeypis prjónablað á netinu þar sem áhugahönnuðir og nýir hönnuðir koma sér á framfæri. Þarna er fullt, fullt af flottum uppskriftum. Ég á heldur betur eftir að leggjast vel í að skoða vetrarblaðið. Svo eru hönnuðirnir með slóð á netsíður eða blogg og þar er enn meira að skoða.
Hef ekki tíma í meira, verð að fara að skoða uppskriftir.
Úps, já, hér er slóðin http://knitty.com/ISSUEwinter09/patterns.php
Bon appetit eða hvernig sem það er skrifað!!! ;-)

Friday, November 27, 2009

Þetta er lífið.....

Þetta er lífið. Fullt af garni og nóg að prjóna. Ég hefði líka átt að setja inn mynd af bókahrúguni sem ég er með til að lesa. Sumir kalla þetta stjórnleysi en mér finnst þetta æðislegt.


Litirnir eru æðislegir, endalaust til af prjónablöðum og prjónabókum og svo eru náttúrulega allar hugmyndirnar sem ég fæ og þarf tíma til að vinna úr. Kanski kemur hann einhvern tíman.

Þar sem aðal prjónið núna eru jólagjafir og ég get ekki birt myndir af þeim strax ákvað ég að setja inn myndir af púðum sem ég gaf litlum ættingjum í afmælisgjafir fyrir nokkrum árum. Ég sé að ég hef eitthvað klikkað á að taka myndir af öllum púðunum en set þessar sem ég á.


Ég teiknaði sjálf bangsan á púðanum hans Magnúsar og er frekar stolt af því. Þetta er eina formið sem ég hef sjálf teiknað fyrir bútasaum.


Svo er þetta týpiskt með börn handavinnukonu, mín börn eiga enga svona púða. Ég þarf að reyna að bæta úr því, en kanski er það að verða of seint með DÞ. Ég þyrfti líklega að finna eitthvað anim til að setja á púða fyrir hann eða kanski láta hann teikna sjálfan mynd..... Það er góð hugmynd. :-)

Wednesday, November 4, 2009

Handstúkur 1

Prjónar nr 3
Garn sem hæfir prjónastærð. Ég hef notað Lanett og Dale baby.

Handstúkurnar eru prjónaðar á 5 prjóna.
Munstur:


Kaðall :


1. - 3. umf: Prjóna 1 brugðna lykkju, 4 sléttar, 1 brugðna lykkju.

4. umf: prj 1 brugðna lykkju, setja 2 lykkjur á hjálparprjón, prjóna 2 lykkjur, prjóna lykkjur af hjálparprjóninum, prjóna 1 brugðna lykkju.

Endurtakið þessar 4 umf.
Gataprjón:


1. umf: Slá bandi yfir prjóninn, taka 1 lykkju óprjónaða, prjóna 1 lykkju, steypa óprjónuðu lykkjunni yfir, prjóna 1 lykkju, prjóna 2 lykkjur saman, slá bandinu yfir prjóninn

2. umf: Slétt prjón

3. umf: Prjóna 1 lykkju, taka 1 lykkju óprjónaða, prjóna 2 lykkjur saman, steypa óprjónuðu lykkjunni yfir, slá bandi yfir prjóninn, prjóna 1 lykkju

4 umf: prjóna slétt

Endurtaka þessar 4 umf.Fitjið upp 60 lykkjur. Prjónið stroff á eftirfarandi hátt.


1. umf: 1 lykkja slétt, 1 lykkja brugðin

2 umf: slétt

Endurtakið þessar 2 umf. 4 sinnum.Eftir það er prjónað slétt. Munstur er staðsett þegar byrjað er að prjóna slétt.


Staðsetning munsturs: Prjónið 27 lykkjur , prjónið munstur yfir næstu 6 lykkjurnar, prjónið 27 lykkjur.


Prjónið 7 cm. Þá á að taka 2 lykkjur úr hvorri hlið og hafa 2 lykkjur á milli úrtakanna.


Prjónið þar til allt stykkið mælist 13 cm, takið þá 2 lykkjur úr hvorri hlið (eins og eftir 7 cm.).


Prjónið þar til allt stykkið mælist 17 cm. Aukið þá út um 2 lykkjur í hvorri hlið og hafið 2 lykkjur á milli útaukninganna.


Prjónið 4 umf. Aukið þá út um 2 lykkjur þumalfingursmeginn.


Prjónið 6 umf. Aukið út um 2 lykkjur í hvorri hlið.


Prjónið þar til allt stykkið mælist 22 cm.


Nú er þumall staðsettur fyrir hægti hönd: Prjónið fyrstu 8 lykkjurnar yfir á hjálparband, setjið þær aftur upp á prjóninn og prjónið slétt þar til allt stykkið mælist 27 cm. Prjónið þá 4 umf stroff. Fellið af.Þumall: Takið upp samtals 19 lykkur og prjónið 4 umf. slétt. Prjónið síðan 4 umf stroff. Fellið af.Prjónið hina handstúkuna eins nema staðsetjið þumalinn á síðustu 8 lykkjurnar á prjóni 2. Það þarf að passa að hann verði spegilmynd handstúkunnar sem er búin.Frágangur: Gangið frá öllum endum.Thursday, October 15, 2009

Kanína

Þá er kanínan sem ég var að prjóna handa HB tilbúin. Það er búið að taka ansi laaaaangan tíma að klára hana.
Strípuð lítur blessunin svona út.
En þar sem ekki þótti við hæfi að hafa hana svona bera fékk hún bleikan kjól og ég lærði að taka betri myndir. Furðulegt að það skuli þurfa að stilla myndavélar svona. Mér finnst að þær eigi að vera imbaprúfar og ég þurfi bara að súmma inn og smella af.

Svaka fín en ekki alveg í fókus.

Stoltur eigandi ( sem er að prjóna skó á kanínuna sína ). Þetta eru 2 sætar saman.
Kanínan og babúskan.
Uppskriftina fékk ég í bók sem heitir Knitted Toys og er eftir höfund sem heitir Fiona McTague. Ég hef prjónað stærri kanínu úr sömu bók og var hún ekki síðri en þessi. Mér finnst frekar gaman að prjóna svona fígúrur svo nú verð ég að finna mér nýja og passa að vera ekki eins lengi og ég var með þessa.

Sunday, October 11, 2009

Handstúkur og peysa

Þá er ég búin með handstúkurnar sem tengdamamma fær í afmælisgjöf. (Afmælið reyndar liðið fyrir nokkru síðan) Ég er bara ánægð með þær og á örugglega eftir að útfæra þær á annan hátt. Ég ætla að setja niður uppskriftina og birta hana á blogginu. Já þetta er sem sagt eftir mig. Fyrsta hönnunin sem ég ætla að birta opinberlega.

Gatamunstrið var einfalt og kemur fallega út sem lína í stúkunni.
Nú um helgina tókum við mamma slátur svo það er búið. Amma kom og hrærði fyrir okkur eins og hún hefur gert frá því ég man eftir mér. Mikið svakalega er ég fegin að vera búin að þessu. Og það sem þetta smakkaðist vel í gærkvöldi. Ummmmm....
Ég skellti mér á lokadag útsölunnar í Skröppu og keypti mér slatta af pappír til að skrappa með. Það er svo mikið til af fallegum pappír að það var verulega erfitt að hemja sig. Ég bara skil ekki hvað það er mikið til af fallegu hráefni til að vinna með. Hvernig er hægt að gera ekki handavinnu þegar það er svona mikið fallegt til?
Ég stóðst ekki mátið að setja inn myndir af Herdísi Birnu í peysunni sem ég prjónaði handa henni í sumar. Hún er ánægð með peysuna en finnst hún stinga aðeins. Nú þegar farið er að kólna getur hún notað peysuna því þá er hún í einhverju síðerma undir.

Og svo ein mynd af munstrinu í nærmynd. Þarf reyndar að fá mér betri myndavél því þessi nær ekki að fókusa nógu vel. Súrt..

Monday, October 5, 2009

Alltaf að prjóna

Það er alveg ótrúlegt hvað það er gaman að byrja á nýju prjónaverkefni. Ég fyllist spennu þegar þannig er því það er svo gaman að sjá hvernig litirnir koma út, hvernig munstrið verður og þannig áfram.
Síðustu vikur hef ég byrjað á nokkrum nýjum verkefnum. Sum þeirra eru jólagjafir og nú er ég búin að lofa sjálfri mér því að vera búin með prjónaðar jólagjafir fyrir Þorláksmessu. Síðustu jól sat ég fram yfir miðnætti aðfaranótt aðfangadags til að klára síðustu gjöfina. Þegar ég hafði lokið við hana og fór að skoða afraksturinn sá ég mér til mikills hryllings að ég hafði prjónað 2 útprjónaða norska vettlinga á sömu hönd. Þetta aðfangadagskvöld fékk systir mín einn vettling í jólagjöf og svo hinn í áramótagjöf.

Næstu 2 myndir sýna vettlinga sem ég fann á Garnstudio vefnum og er að prjóna. Garnið sem ég nota er Drops Alpaca og er ótrúlega fallegt garn.
Á þessari mynd sést lófasvæðið.

Þessi mynd sýnir handarbakið.Svo er ég að prjóna sokka handa einhverjum.....

Síðan eru það handstúkur sem eru dáldið háar. Þegar ég er búin með þær og get tekið almennilega mynd ætla ég að setja uppskriftina á vefinn. Ég er búin að bögglast í gegn um þær og lagað uppskriftina til svo hún verði nothæf.


Monday, September 28, 2009

Meira og meira

Ég rakst á þessa flottu vettlinga þegar ég var að skoða uppáhalds bloggsíðurnar mínar.

Þeir eru bæði sniðugir og flottir og því stóðst ég ekki mátið að setja slóðina af uppskriftinni inn á hjá mér. Hún er http://crazyknittinglady.files.wordpress.com/2009/09/podstergloves-sept26.pdf

Ég er langt komin með skrautlegu lopapeysuna mína. Ég er í pælingum með úrtökuna við axlir og háls en þetta er allt að koma.
Ég held ég geti verið nokkuð viss um að enginn annar eigi svona lopapeysu. :-)
Í gærkvöldi ákvað ég að prjóna mér einfaldar handstúkur úr afgangsgarni sem ég átti. Það tókst og ég skartaði þeim í vinnunni í dag. Þær eru ansi góðar að því leiti að þær eru úr angóru og ullargarni svo það er heitt að hafa þær á sér.

Það er svo merkilegt að þegar ég var að taka mynd af þeim glampaði það mikið á gangórugarnið að liturinn sést varla.

Monday, September 21, 2009

Affellingar - ráð

Ég fékk þessi fínu ráð send í netprjónablaði sem ég fæ vikuleg. Mér fannst sérstaklega ráðið með lausu endalykkjuna gott því ég lendi iðulega í þessum vanda.
Loose Loop Alert (laus endalykkja)

When all of the stitches on the needle are bound off, the last stitch can be quite loose. To tighten and neaten this stitch, work it with the stitch in the row below it: insert the right needle from the back into the stitch below the last stitch, lift this stitch and place it onto the left needle (Figure 1).
Then knit the stitch below and the last stitch together. Bind off the last stitch on the right needle, cut the yarn, and pull the cut end through the last stitch to secure it (Figure 2).
Svo kom annað ráð og það er að fella af með 2 númerum stærri prjónum en prjónað var með. Þá er minni hætta á að t.d. hálsmál verði of þröngt. Þetta hef ég gert í töluverðan tíma enda nóg að lenda nokkru sinnum í því að þurfa að rekja upp affellinguna. Samt er ég reyndar með eina peysu núna sem ég þarf að rekja affelinguna á kraganum upp því hún herpist saman en kraginn á að breiða úr sér yfir axlirnar.
Svo er enn eitt ráðið sem ég var að læra og það er að fitja upp fleiri lykkjur en þarf þegar fitjað er upp fyrir sokka. Þegar fyrsta umferðin er prjónuð eru 2 lykkjur prjónaðar saman (jafnt dreift yfir) þannig að eftir stendur sá lykkjufjöldi sem á að nota í sokkana. Með þessu verður stroffið aldrei of þröngt.

Sunday, September 20, 2009

Lopataska

Þá er lopataskan fyrir mömmu búin. Enn og aftur kemur mér það á óvart hvað litirnir eru fallegir í lopanum. Ég hef nánast ekkert prjónað úr brúnum lopa en þvílíkir litir. Ég á örugglega eftir að prjóna úr þessum litum aftur.

Litirnir eru dásamlegir og ég held bara að það sé ekki hægt að láta sér mistakast.

Hér er ég búin að sauma töskuna saman en á eftir að þæfa hana. Ég mátti til með að setja inn mynd af henni sem sýnri hvað hún er stór. Eftir þæfingu verður taskan eins og flestar aðrar töskur að stærð, þ.e. hún nær ekki lengur niður á miðja leggi.

Og svo bara meira af henni...

Eftir að búið er að þæfa töskuna (í þvottavél) er varla hægt að sjá að hún sé prjónuð með garðaprjóni, ullin þæfist svo vel saman.

Monday, September 14, 2009

Réttir og afmæli

Víðidalstungurétt.

Þá er helgin liðin. Mikið ótrúlega var hún skemmtileg og mikið ótrúlega var ég þreytt eftir hana. Á föstudag brunuðum við sem leið lá í Víðidalinn til að taka þátt í Víðidalstungurétt sem var haldin á laugardaginn.

Herdís Birna og Anna Sigga að draga í dilka

Í réttunum var síðan mikill atgangur þar sem kindurnar voru ekki allar á sama máli og mannskapurinn. Þær vildu sem sagt fæstar fara í rétta dilka og varð því að draga þær á sinn stað. Ég uppgötvaði á sunnudag að það eru einhverjir upphandleggsvöðvar (sem eru svona undir eða á bak við) sem ég nota sjaldan og var ég því með svaka harðsperrur í þeim.
Hér sést aftan á mig þar sem ég er eitthvað að blanda mér í málin.
Svo voru allir ótrúlega svangir og gott að komast í nesti sem Sigga á Þorkelshóli var búin að smyrna ofan í okkur.

Þegar búið var á flokka féð á rétta staði þurfti að reka það heim að bæ, Þorkelshóli. Það var 3ja tíma göngutúr í þúfum og á malarvegi og sikksakki því ekki ganga kindur í beinni röð og grasið var mikil freisting fyrir þær. Við Daníel höfðum það þó af að ganga allan tíman og vorum við orðin nokkuð þreytt í fótunum þegar þetta var yfirstaðið.

Að lokum var okkur boðið upp á gott sveitalæri með öllu tilheyrandi og það er sjaldan sem ég er eins svöng og eftir réttirnar.
Sem dæmi um hvað ég var þreytt, þá var sýnd sannsöguleg mynd í sjónvarpinu um 2 golfara sem unni sig upp í golfi meðan það var eingöngu fyrir aðal og yfirstétt. Éf hef engan áhuga á golfi en það var ekki hægt að slíta mig frá myndinni. Ég held að það hafi verið þreytunni að kenna. Ég hefði örugglega fundið mér annað að gera ef ég hefði verið heima í sófa.
Við komum heim á sunnudeginum. Við rétt stukkum inn með dótið, fórum í snögga sturtu og síðan var farið í afmæli til mömmu. Þar biðu kræsingar og skemmtilegt fólk svo við sátum lengi.

Í morgun komst ég varla á fætur.

Fyrst ég var að segja frá kindum og mömmu ákvað ég að setja inn myndir af lopatöskunni sem ég er að gera fyrir mömmu. Ég er reyndar byrjuð að sauma hana saman svo nú fer hún að klárast.
Litirnir í ullini eru ótrúlega fallegir og er ég sérstaklega hrifin af brúna litnum núna.