Thursday, September 23, 2010

AppelsínukragiÞessi kragi er ferlega hlýr og þægilegur. Hjá mér var mikilvægt að velja garn sem styngi ekki og þess vegna prjónaði ég hann úr merinóull. Vegna úrtökunnar sem er í kraganum hangir hann ekki niður heldur helst þokkalega vel uppi.

Litlir hringprjónar nr. 3,5

1 hnota/dokka af garni sem passar fyrir prjónana

Munstur:
* Prjónið 8 lykkjur, slá bandi yfir prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtekið frá * til * út hringinn. Prjónið 1 umferð slétt prjón. (Þegar kemur að úrtöku fækkar lykkjunum 8 fyrst í 7 lykkjur og síðan í 6 lykkjur.)

Kragi:
Fitjið upp 120 lykkjur og prjónið 3 garða. Tengið í hring. Prjónið munstur allan hringinn. Þá eiga að vera 12 munstur.

Prjónið 5 cm.

Pjónið þá * 7 lykkjur , slá bandi yfir prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtekið frá * til * út hringinn. Þá eru 108 lykkjur á prjóninum.

Prjónið þar til stykkið mælist 10 cm.

Pjónið þá * 6 lykkjur , slá bandi yfir prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtekið frá * til * út hringinn. Þá eru 96 lykkjur á prjóninum.

Prjónið þar til allt mælist 15 cm.

Prjónið 4 garða.

Fellið laust af. Gott er að nota prjón nr. 5 til að fella af með. Þá fæst úrtaka sem er nógu laus til að komast auðveldlega yfir höfuð.

Thursday, September 16, 2010

Svo sætur

Hvað er friðsælla en að sjá kött sofa? Ég varð næstum öfundsjúk út í að hægt væri að sofa svona vel. Kötturinn haggaðist ekki þó ég tæki nokkrar myndir af honum.
Hann lét ekki einu sinni rifa í augun. Bara steinsvaf. Hann er ekki alltaf svona rólegur. Núna truflar draslið í stólnum hann og er hann farinn að bregða á það ráð að taka hnyklana og teppið í kjaftinn og draga fram á gólf. Það er ótrúlega fyndið að sjá hann böglast með þetta og þess vegna set ég garnið aftur upp í stólinn til að geta hlegið meira.

Sunday, September 12, 2010

Rauðu hanskarnir

eru búnir fyrir nokkru síðan. Það tók sinn tíma að skola úr þeim og leggja þá til og að því loknu að taka mynd af þeim.
Útkoman er þessi


Þeir eru fagurrauðir með gylltum þræði í, prjónaðir úr sisu garni. Garnið er fallegt þannig að útkoman verður fín.

HB á þá og bara ánægð með þá. Ég hélt fyrst að þeir gætu orðið of jólalegir en það er ekki. Um leið og það fer að kólna getur hún notað þá.

Ég get nú ekki sagt að hanskar sé það skemmtilegasta sem ég prjóna. Ónei, þeir eru seinlegir og mér fannst ég alltaf vera að gera það sama þegar ég prjónaði fingur eftir fingur. (Ótrúlegt tillitsleysi við prjónafólk að maðurinn skuli vera með 10 fingur). En þar sem útkoman var góð á ég kanski eftir að nenna að prjóna annað hanskapar. Ég lofa samt engu....

Thursday, September 9, 2010

Þegar kóngur kom

er alveg ótrúlega skemmtileg bók. Ég kláraði hana fyrir stuttu síðan og hafði verulega gaman af því að lesa hana. Er enn að hugsa um hvort hún sé sannsöguleg eða ekki svo vel er hún skrifuð.
Meðan ég var að lesa hana fórum við Gunni á Árbæjarsafn. (Hann var búin að lesa bókina) Megnið af tímanum þar fór í að skoða húsin og athuga hvenær þau voru byggð. Ef þau voru frá þeim tima sem sagan gerist fórum við inn og skoðuðum húsið. Ég held að það hafi sjaldan verið jafn gaman að heimsækja safnið. Ekki skaðaði að þar var einnig markaður og keypti ég þá bestu chillisultu sem ég hef smakkað (líklegast sú eina sem ég hef smakkað ;-)Ég væri alveg til í að prófa að búa til svona sultu svo ef einhver á uppskrift sem ég má fá eða getur bent mér á síðu með góðri uppskrift þá væri það vel þegið.
Annars er ég búin að búa til rifsberjahlaup og sólberjahlaup með Ólöfu systur. Rifberjahlaupið er mjög gott en ég enn að bíða eftir að sólberjahlaupið verði þykkt svo hægt sé að borða það. Með þessu er ég alveg að verða fyrirmyndarhúsmóðir eða er það ekki?