Saturday, July 25, 2009

Sokkar - toe up

Það er alltaf svo gaman þegar maður finnur eitthvað nýtt að prófa. Það nýjasta nýtt hjá mér er að prjóna sokka og byrja á tánni. Þetta hef ég aldrei prófað áður. Spennandi. Uppskriftina fann ég í júlíblaði Knit today. Svo var bara að byrja....
Fyrst var að fitja upp og taka síðan upp jafn margar lykkjur á móti lykkjunum sem voru fitjaðar upp. (T.d. fitja upp 8 l, prjóna 1 umf. og tek síðan upp 8 l. 16 lykkjur á prjóninum.w) Það reyndist mér vel að prjóna nokkra hringi með allar lykkjurnar á 2 prjónum, þá fór ekki allt í klessu.

Síðan var haldið áfram að prjóna þar til 50 lykkjur voru á prjónunum og eftir það hring eftir hring þar til lengdin var komin sem þarf að hælnum. Hvernig gengur með hælinn kemur næst.

Við Herdís sátum úti í sól og sumari, ég að byrja á sokknum og hún að búa til kort handa Katrínu, litlu frænku.
Ekki má gleyma hinum áhugasama Bubba byggi sem lætur ekkert handverk fram hjá sér fara.

Ég ákvað að láta myndir af handstúkunum fylgja með. Það var verulega skemmtilegt að búa þær til og ég held bara að þetta verði afmælisgjöfin sem ég gef konum næsta árið. Það er hægt að leika sér með liti og breyta munstri svo úrvalið verður mikið þegar upp er staðið.

Thursday, July 23, 2009

Gaman gaman

Nú er ég búin með settið sem Katrín á að fá í afmælisgjöf. Ég er ánægð með það og finnst flott að blanda saman ullargarninu og angórunni til skrauts. Þetta eru töluverðar andstæður sem virka vel saman.
Ég ákvað að setja líka inn mynd af lopatösku sem ég prjónaði í vor. Formið er skemmtilegt og lopinn bara flottur.

Um daginn fórum við til Þingvalla. Veðrið var gott og ég prófaði myndavélina. Uppgötvaði að aðdráttarlinsan var mun sterkari en ég hélt.Í vikunni fórum við í Dýragarðinn Slakka í Laugarási. Þvílíkur unaðsreitur sem sá staður er í góðu veðri fyrir alla fjölskylduna.

Monday, July 20, 2009

Ný tegund endurvinnslu

Nú er ég búin að uppgötva nýja tegund af endurvinnslu. Það er að endurvinna peysur. Ekki peysuna sem slíka heldur rekja hana upp og nýta garnið upp á nýtt. Ég sá grein um þetta í bresku prjónablaði sem ég keypti mér og fannst þetta ferlega sniðugt. Ég fór því og skoðaði gamlar peysur af mér sem ég hafði ekki tímt að henda því garnið var flott (en sniðið algjörlega úr tísku). Ég á 3 peysur sem ég get rakið upp og er hálfnuð með að rekja eina þeirra upp og er fyrir vikið að eignast þetta fína, hvíta bómullargarn. Galdurinn í þessu er að peysan sé prjónuð í sniði en ekki sniðin úr stykki. (vá smá heilabrjótur kanski eins og ég orða þetta). Ef peysan er prjónuð eftir sniði eru jaðrarnir heilir og því hægt að rekja hana upp. Ef hún er sniðin úr stranga eru jaðrarnir klipptir og því hver umferð stuttur þráður. Það er hægt að þekkja þessar peysur á því hvernig þær eru saumaðar saman. Heilar peysur eru með beinum saumi eða lykkjusaumi en sniðnar peysur eru ovelokkaðar. Svo nú er bara að skoða gömlu peysurnar sínar!!!!!

Friday, July 17, 2009

Kaffihús

Í dag fór ég á Kaffi Flóru með mömmu, ömmu, Þóru Sif og tvíburunum hennar og Möggu Heiðu og litla hennar. Þetta var virkilega góð stund og ætti að eiga sér oftar stað. Veðrið var gott, sólin skein og við sátum inni í hitabeltisloftslagi.

Fyrir stuttu átti ég afmæli og ákvað að gefa mér afmælisgjöf þar sem ekki hefur farið mikið fyrir svoleiðis veseni hjá eiginmanninum. Ég fór í Storkinn og keypti mér KnitPro prjónasett. Prjónaoddarnir spana bilið 3,5 til 8. Þvílíkir prjónar. Oddurinn er svo mjór að hann gengur inn í lykkjurnar eins og ekkert sé. Prjónarnir eru líka léttir og þægilegir, snúrurnar vinda ekkert upp á sig. Ég get bara mælt með þessum prjónum. Svo er ég skráð í Rowan klúbbinn í búðinni sem þýðir að ég fæ 10% afslátt af öllu sem ég kaupi þar. Ég keypti mér einnig sokkaprjóna sem mig vantaði og fékk þá nánast endurgjaldslaust vegna afsláttarins. Þeir eru einnig frá KnitPro og eru æðislegir. Nú er bara að halda áfram að prjóna.

Wednesday, July 15, 2009

Búið fyrir einhverju síðan

Ég ákvað að setja inn myndir af broti af því sem ég hef búið til í gegn um tíðina. Það er alveg svakalegt hvað ég gleymi að taka myndir af því sem ég hef gert.
Lopapeysa á mig og pokemon peysa á Daníel

Dúkkukerrupoki sem Karen frænka fékk í jólagjöf 2009.

Húfa sem Katrín frænka fékk.
Peysa sem Karen frænka fékk í jólagjöf 2009.

Kanína sem Karen frænka fékk í skírnargjöf.


Lopapeysa sem Daníel er loksins farinn að passa í.


Sett sem Haukur Ingi Möggu Heiðu strákur fékk í fæðingargjöf.


Svona eins vettlinga fengu Katrín og Karen í jólapakkanum 2009.


Húfur sem ég prjónaði fyrir nokkur börn sem eru mér kær.

Tuesday, July 14, 2009

Dugleg

Ég er búin að skrappa eina blaðsíðu í dag. Enn og aftur er Boston á dagskrá og nú kláraði ég seinni blaðsíðuna um skóðagferðina okkar.
Ég er líka búin að lesa úti í sólinni svo það var líka smá sólbað. Einnig er ég að búa til afmælisgjöf handa lítilli frænku sem er nýlega búin að eiga afmæli. Það er því nóg að gera. Mikið svakalega er gott að vera í sumarfríi og ég finn hvað vinnan er að þvælast mikið fyrir öllu þessu sem mig langar til að gera. En þannig er það líklega hjá svo mörgum. Hjá mér er ekki nóg að bæta við klukkustundum í sólarhringin heldur þyrfti ég líka fleiri daga í árinu til að geta gert allt sem mig langar til að gera.

Þræðir - tegundir


Þegar unnið er með garn er úr mörgu að velja. Til eru margs konar garn gerð úr hárum dýra, plantna og úr gerviefnum. Ull, lopi, móhair, angóra, silki, kasmmírull, kamelull, alpaca eru þræðir úr hári dýra. Bómull, lín og ramie eru þræðir úr plöntum. Acryl, nælon, pólyester, metal og microfíbrur eru gerviefni. Hver þessara þráða er einstakur og hefur sín sérkenni. Stundum er þeim blandað saman til að ná fram því besta í hverjum um sig og ná þannig fram sem bestum gæðum í garnið.

Sérkenni garnsins finnst t.d. á því hvernig er að koma við það, hve mikil teygja er í því, hve vel það tekur í sig raka og hve auðvelt er að lita það.Eitt sem gott er að hafa í huga er að garn sem er vel spunnið (þétt snúinn þráður) er góður í flíkur sem mæðir mikið á t.d. sokka og vettlinga. Vel spunninn þráður er sterkari en þráður sem er lítið spunninn.

Lítið spunnin þráður (t.d. einfaldur plötulopi) er frekar veikur þráður og slitnar auðveldlega. Aftur á móti er hægt að fá mjög hlýja flík úr þannig þráðum miðað við þyngd hennar því loftið á milli þráðanna heldur heitu lofti að líkamanum og einangrar hitann þannig við hann.

Þegar garn er keypt er alltaf sniðugt að skoða hve langt garnið er miðað við þyngd. Því lengra sem garnið er því meira er verið að fá fyrir þyngdina og (oftast) fyrir peningin.

Þegar flík er prjónuð skiptir máli að athuga prjónfestuna. Mikilvægt er að gera prjónaprufu sem er rúmlega 10 x 10 cm að stærð. Þannig er hægt að laga stærð prjónanna að garninu og prjónfestunni og koma í veg fyrir að flíkin verður og stór eða of lítil.

Monday, July 13, 2009

Sumarsól

Ma og pa komu heim frá Boston í gær. Við fórum og sóttum þau út á flugvöll, það er svo notalegt að koma heim eftir flug og einhver sem er ekki með flugþreytu í sér keyrir mann heim.
Ég og börnin heimsóttum þau í dag til að bjóða þau almenninlega velkomin heim. Daníel fékk reyndar mp3 spilara sem þau keyptu fyrir hann úti og hefur ekki verið til viðtals síðan, Herdís fékk þessar líka fínu gervineglur og er orðin svaka pæja og ég fékk þetta fína scrap dót í afmælisgjöf og þar að fara að nota það. Ég fékk alveg fiðring í puttana þegar ég sá stafina og blúnduna og ......Annars er það þannig að þegar sólin skín reynir maður að vera úti því það eru ekki svo margir góðir dagar á Íslandi. En í kvöld, æ nei þá er So you think you can dance og ég missi ekki af því. Á morgun hlýtur að verða tími til að scrappa smá.

Thursday, July 9, 2009

Loksins er ég búin með peysuna hennar Herdísar. Mynd af henni er hér fyrir neðan. Hún var mjög ánægð með hana en finnst hún stinga dálítið. Hún þarf bara að vera í einhverju síðerma undir og þá er þetta í lagi.Ég fór í göngutúr í dag og heldur betur kominn tími til. Ég er að breytast í algjört sófadýr og vill bara gera handavinnu daginn út og daginn inn. Skemmtilegast að gera það sem ég
hanna sjálf.

Sjalið sem sést hér gerði ég fyrir tæplega 2 árum síðan. Það er gert úr afgöngum, frá því að vera ca 15 cm spottar í að vera litlir hnyklar sem ég notaði. Það var ótrúlega gaman að prjóna það því það var ekki nokkur leið að sjá hvað lenti við hvað. Ég var búin að hnýta alla endana saman og búa til einn heljarstóran hnykil til að prjóna úr.

Tuesday, July 7, 2009

Flottar töskurÉg var að skoða prjónasíður á netinu og rakst á þessa síðu með svo ótrúlega flottum töskum. Ég mátti til með að setja slóðina inn.
Töskurnar eru litaglaðar og lífga upp á.

Monday, July 6, 2009


Við Gunni fórum í bæinn í gær. Það er langt síðan það hefur gerst. Maður er allt of latur að fara niður í bæ. Við röltum um bæinn í góðu veðri og fórum í bókabúðir. Ég sá að "pocket"bækur í Iðu eru nokkukð ódýrari en í Eymundson. Fólk ætti að athuga þetta.
Ég kláraði að sauma peysuna hennar Herdísar saman í gær, skolaði úr henni og lagði til. Hún verður svaka fín þegar hún verður tilbúin. Ég er mjög ánægð með hana.
Ég mátti til með að prófa að setja mynd til á athuga hvort það gengi og það gekk. Vei!!!!

Saturday, July 4, 2009

Búðaæði

Í dag fór fjölskyldan í Kringluna sem væri ekki til frásagnar nema að allir nema ég komu heim með nokkra poka á mann. Það var hálf asnalegt að eiga ekki neitt til að taka upp úr poka. Ég var samt ánægð með fólkið mitt og þarf ekki að huga að fatainnkaupum á næstunni.

Ég er alveg að verða búin með rauðu kaðlapeysuna. Á ég bara eftir að sauma hana saman og prjóna belti sem er með henni. Peysan er fengin úr nýjasta prjónablaðinu Ýr og er á dótturina. Í blaðinu er hún prjónuð í bláu garni.

Ég datt inn á góða handavinnusíðu í dag sem er með prjón, hekl o.fl ofl. Linkurinn inn á hana er http://www.knittingdaily.com/. Mæli með henni.

Thursday, July 2, 2009

Ég er langt komin með rauða kaðlapeysu á dótturina. Ætti að ná að klára hana í síðasta lagi um helgina. Vonandi slær hún í gegn því það er töluverð vinna í henni. Ég hef áður prjónað peysu á hana sem hún notaði síðan ekki. En þessa valdi hún sjálf svo það hlýtur að verða í lagi.

Wednesday, July 1, 2009

Hmmm þetta verður ekki eins auðvelt og ég hélt. Það tekur smá tíma að læra á þetta.