Tuesday, July 14, 2009

Þræðir - tegundir


Þegar unnið er með garn er úr mörgu að velja. Til eru margs konar garn gerð úr hárum dýra, plantna og úr gerviefnum. Ull, lopi, móhair, angóra, silki, kasmmírull, kamelull, alpaca eru þræðir úr hári dýra. Bómull, lín og ramie eru þræðir úr plöntum. Acryl, nælon, pólyester, metal og microfíbrur eru gerviefni. Hver þessara þráða er einstakur og hefur sín sérkenni. Stundum er þeim blandað saman til að ná fram því besta í hverjum um sig og ná þannig fram sem bestum gæðum í garnið.

Sérkenni garnsins finnst t.d. á því hvernig er að koma við það, hve mikil teygja er í því, hve vel það tekur í sig raka og hve auðvelt er að lita það.Eitt sem gott er að hafa í huga er að garn sem er vel spunnið (þétt snúinn þráður) er góður í flíkur sem mæðir mikið á t.d. sokka og vettlinga. Vel spunninn þráður er sterkari en þráður sem er lítið spunninn.

Lítið spunnin þráður (t.d. einfaldur plötulopi) er frekar veikur þráður og slitnar auðveldlega. Aftur á móti er hægt að fá mjög hlýja flík úr þannig þráðum miðað við þyngd hennar því loftið á milli þráðanna heldur heitu lofti að líkamanum og einangrar hitann þannig við hann.

Þegar garn er keypt er alltaf sniðugt að skoða hve langt garnið er miðað við þyngd. Því lengra sem garnið er því meira er verið að fá fyrir þyngdina og (oftast) fyrir peningin.

Þegar flík er prjónuð skiptir máli að athuga prjónfestuna. Mikilvægt er að gera prjónaprufu sem er rúmlega 10 x 10 cm að stærð. Þannig er hægt að laga stærð prjónanna að garninu og prjónfestunni og koma í veg fyrir að flíkin verður og stór eða of lítil.

No comments:

Post a Comment