Monday, December 28, 2009

Jólagjafirnar - prjónuðu

Þá er komið að því að sýna jólagjafirnar sem ég prjónaði og gaf. Ég hef reyndar ekki tekið myndir af bleiku peysunni sem ég gerði svo ég verð að setja inn myndir af henni síðar.

Fyrst er að sýna vettlinga sem ég gerði fyrir pabba minn. Ég prjónaði þá úr alpaca garni sem ég keypti í Rúmfatalagernum og er þetta garn æðislegt viðkomu. Það er mjúkt og gefur fallega áferð.
Uppskriftina fann ég á ganstudio.dk. Þar eru þeir reyndar prjónaðir úr fíngerðara garni en með því að auka grófleikann fékk ég stærri vettlinga sem pössuðu á karlmannshönd.

Næst er að sýna bangsan sem Katrín fékk. Á einhverju þarf að byrja og ég byrjaði á því að prjóna fæturnar á bangsann. Nauðsynlegt að hafa undirstöðurnar traustar...

Næst var að klára að prjóna alla líkamsparta og sauma þá saman. Þar sem hvíta garnið kláraðist varð bangsinn að fara í nærbuxur og fékk hann þessar líka fínu bleiku.

Því næst var að staðsetja eyrun á hann og sauma andlitið á.

Að lokum var að dressa bangsa upp og úr varð þessi líka fíni ballerínubangsi í tútupilsi og allt...

Nú er komið að sokkunum sem ég prjónaði. Ólöf systir fékk þessa útprjónuðu sokka. Þeir eru með gatamunstri sem er þannig að ekki var hægt að horfa á sjónvarp þegar það var prjónað. Það varð að einbeita sér algjörlega að munstrinu.

En afraksturinn var þannig að það var þess virði að einbeita sér svona að þeim. Ég var svakalega ánægð með sokkana og ætla að prjóna svona handa mér líka....... einhverntíman.


Ein mynd í viðbót, þeir eru svo flottir ;-)

Ruben fékk líka sokka í jólagjöf. Þeir voru þægilegir í prjónun en mjög fínir. Munstrið var skemmtilegt og kom vel út í sokkunum. Mér finnst miklu skemmtilegta að prjóna svona sokka heldur en hefðbundna með stroffi og sléttum prjóni en engu munstir.

Bæði sokkapörin voru prjónuð úr Sisu ullargarni og kom það mjög vel út í þeim.

Ég þarf að útvega mér myndir af peysunni sem Karen fékk. Ég skil bara ekkert í mér að hafa gleymt að mynda hana. Það hefur verið komið einum of mikið jólastress í mig þarna rétt fyrir jól.

2 comments:

  1. Kærar þakkir fyrir sokkana. Ég er einmitt í mínum akkúrat núna og auðvitað í inniskóm líka. Ég tími nefnilega ekki að láta þá snerta gólfið :)

    ReplyDelete
  2. Mikið er ég fegin, ég þurfti nefnilega að horfa í hverja lykkju í annarri hverri umferð... :-). AFÓ

    ReplyDelete