Ég ákvað að prjóna mér sokka úr hnotu sem ég keypti mér einhvern tíman í vetur. Þar sem ég er svo hrifin af því að byrja á tánni ákvað ég að nota þá tækni.
Þar sem mér finnst líka svo gaman að finna upp hlutina sjálf ákvað ég að hanna mér sokka sem byrja á tánni. Eftir að hafa byrjað að minnsta kosti þrisvar sinnum (of vítt, of breið tá, of þröng tá) var ég með þetta á prjónunum og fótunum.
Mér fannst þetta líta alveg ljómandi vel út og var meira að segja með svo mikla hönnun á sokkunum að ég setti gataprjón sem munstur í þá.
Eftir því sem sokkurinn stækkar er ég ánægðari. Víddin er alveg eins og ég vil hafa hana, litirnir flottir svo ekki get ég kvartað.
Svona líta þeir út núna. Hællinn er ótrúlega auðveldur. Hefðbundi hællinn er auðveldur ef maður kann hann en ef ég væri að byrja að prjóna sokka mundi ég vilja læra þennan hæl því hann er mörgu sinnum auðveldar en sá hefbundni.
Þar sem mér er lífsins ómöglegt að vera bara með eitt stykki í gangi í einu ákvað ég að byrja á litríkri stelpupeysu. Sjáum hvað verður úr henni og hver fær.
Þar sem myndirnar af fína vestinu sem ég hannaði og prjónaði voru svo glataðar ákvað ég að setja inn nýjar myndir af því.
Neðst var breiður klukkuprjónsbekkur. Mér fannst skemmtilegt að breyta frá því að hafa stroff.
Svona lítur það út að aftan og
svona lítur það út að framan. Garnið er silkimjúk blanda af merino ull og silki. Getur varla stungið nokkurn mann. Einnig var það drjúgt því ég notaði bara þrjár hespur í vestið.
Svo er ég alltaf að lesa. Ég ákvað samt að hætta að setja inn allar bækurnar sem ég les en ætla að setja inn bækur sem eru það góðar að ég verð að láta vita að ég hafi lesið þær. Ég er samt bara að ná að lesa tvær bækur í júni en náði að lesa fjórar bækur í maí (reyndar hraðlas ég tvær þeirra).
Í gær hélt ég upp á afmælið mitt og gleymdi náttúrulega að taka myndir. Ég bauð upp á tvenns konar súpur og var önnur Mexico súpa með nacho og öllu tilheyrandi, hin var kölluð Argentínusúpa þar sem Argentína var hitt liðið sem var að keppa í fótbolta þetta kvöld. Hún var reyndar rjómalöguð sveppasúpa með hráskinku út í. Ferlega góð og uppskriftin er á ms.is. Síðan var boðið upp á kökur á eftir. Mér fannst mjög skemmtilegt að fá næstum alla til mín, vantaði hluta af noregsliðinu og karlmennina í Mosarima. Þetta er eitt af því sem mér finnst gefa lífinu gildi, að hitta fólkið sitt og eiga góðar stundir með því.