Sunday, March 11, 2012

Prjón, meira prjón

 Nú er aldeilis langt síðan ég póstaði síðast inn á síðuna mína. Ég fékk dúndur vöðvabólgu í axlirnar og lagði prjónana á hilluna í febrúar. Í stað þess að prjóna þá fór ég yfir allt sem ég hef byrjað á síðustu ár, takið eftir "síðustu ár" og ég ætla ekki að opinbera hver sá fjöldi er, mér blöskraði sjálfir.
Þess vegna er ég búin að forgangsraða stykkjunum mínum og þessi 4 eru þau sem ég ætla að byrja á að klára.

Fyrst er að nefna vettlinga sem ég byrjaði á, þurfti að rekja upp og byrjaði á aftur. Græna garnið litaði ég sjálf og er dáldið spennt að sjá hvernig það kemur út. Það er ástæðan fyrir því að ég setti þá á topp 4.


Næst er að nefna peysu sem ég prjóna "neck down". Ég hef aldrei áður prjónað peysu frá hálsi og svo er hún mjög einföld og hentar vel fyrir framan sjónvarpið. Þess vegna er hún á topp 4.


Garnið sem ég notaði í hálsmálið er ekki það sama og í sjálfa peysuna. Þetta er skrautgarn með fallegri áferð sem sést ekki á myndinni.
Peysan er komin á það stig að ég þarf að máta hana og sjá hvernig hún er á mér.


Þá er það fallega vestið sem ég er að prjóna og er búin að vera allt of lengi með. Ég var búin með kaðlabekkin þegar ég áttaði mig á því að ég var með of fíngerða prjóna og vestið þar af leiðandi of lítið á mig. Svo ég rakti allt upp og byrjaði upp á nýtt.


Garnið er frá Ömmu mús og er blanda af silki og ull, yndislegt garn.


Svo er ég líka að prjóna sokka sem eru á topp 4 því ég er búin með annan og alveg að komast að hælnum með þann seinni. Þeir eru prjónaðir frá tá og upp. Ég er ekki með mynd af þeim núna en set hana inn næst.

Að lokum enda ég á fallegum blómavendi sem ég keypti í gær til að lífga upp á heima. Ég er orðin svo leið á snjó eða rigningu til skiptis og himni sem er næstum alltaf grár svo ég ákvað að færa smá sumar inn.

No comments:

Post a Comment