Wednesday, January 20, 2010

Prjóni prjóni prjóni .....

er eitthvað skemmtilegra en það. Jú, örugglega eitthvað sem er allavega jafn skemmtilegt en ekki margt sem er skemmtilegra. Samt kanski eitthvað .... hmmmmm. Látum staðar numið.

Ég veit að systrum mínum sem eru ekki eins hrifnar af því að prjóna og ég geta eflaust talið upp fullt af einhverju sem þeim finnst skemmtilegra að gera en að prjóna.

Nú er ég nýlega búin að klára 2 verkefni. Annað er sjalið sem ég setti inn eftirfarandi myndir af. Hitt er kragi sem ég set inn seinna.
Sjalið er prjónað úr einföldum plötulopa og einbandi. Ég notaði uppskrift úr gömlu prjónablaðinu Ýr. Það væri í rauninni ágætt að minnka lykkjufjöldan aðeins því þessi samsetning virðist vera aðeins grófari en uppskriftin miðast við.

Eins og sést er ekki um hefðbunið sjal að ræða heldur þetta sem sést hér. Lögunin er frekar skemmtileg og það liggur ótrúlega vel yfir axlir og bak og fer ekki í krumpu og þykkildi þegar búið er að binda það sama.


Munstirð var einfalt hálfklukkuprjón. Þegar búið var að prjóna axlar- og bakhlutann voru teknar upp lykkjur og framhlutinn prjónaður.

Ég ákvað að vera djörf og birta myndir af frúnni íklæddri sjalinu. Fyrst bakhlutinn.....

og síðan framhlutinn.

Ég stóðst ekki mátið að setja líka inn myndir af peysunni sem 5 ára frænkan fékk í jólagjöf. Þetta er hefðbunin norsk peysa með áttblaðarósarmynstri. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég geri bleika, norska peysu og mér til mikillar gleði gekk það alveg upp. Reyndar munar miklu að ég skyldi ákveða að nota svartan lit með. Við það datt þetta væmna út sem annars hefði getað orðið.
Svona leit berustykkið út.....

og svona var neðan á peysunni og framan á ermunum....

og svona leit peysan út.

Það var ferlega gaman að prjóna hana og ég er ánægð með afraksturinn og enn ánægðari með knúsið sem ég fékk fyrir hana.

Wednesday, January 13, 2010

Candy stripe húfa

Ég ákvað að setja inn myndir af litríkustu húfunni sem ég hef gert í langan tíma. Ég byrjaði á því að kalla hana candyflos húfuna því mér fannst hún eins og candyflos en þegar jólatíminn kom fannst einhverjum (sem ég man ómöglega hver var) húfan vera eins og candystripe brjóstsykur og mér fannst það bara alveg rétt.

Húfan er prjónuð þannig að kollurinn er prjónaður fyrst og er í annarri hverri umferð aukið um 1 lykku í öðrum endanum og 2 lykkjur prjónaðar saman í hinum endanum. Þegar óskaðri lengd utan um höfuðið er náð er fellt af og saumað saman í hliðinni.



Að því loknu eru prjónaðar upp lykkjur og stroff prjónað í óskaða lengd.

Síðast er bandi þrætt í gegn um kollinn og rykkt saman. Gengið frá endum.


Einfalt, ekki satt.

Hér er síðan heimasætan með húfuna á sér en hún var tilbúin til að vera módel fyrir mig enda myndast hún miklu betur en ég nokkurn tíman.

Saturday, January 2, 2010

Nýárskveðja

Ég óska þér gleðilegs og farsælt árs. Takk fyrir það gamla.

Það er alveg ótrúlegt hvað desember og sérstaklega jóladagarnir líða hratt. Það er eins og allt sé á hraðspólun þennan mánuð. Ég er búin að eiga alveg yndislegan tíma. Búin að hitta fjölskylduna heilmikið (saknaði þeirra í Noregi), borða helling af góðum mat, kom sjálfri mér á óvart með hvað ég gat búið til góðan mat, fyllast góðum anda og ró (afslöppun frá álaginu í vinnunni, hehe), fá góðar gjafir og horfa á fullt af rakettum puðrast upp í loft og annað eins sprengt á jörðu niðri.

Í dag keyrðum við síðan út fyrir bæinn til að sjá vetrarríkið Ísland. Svona af því að ég nenni ekki endalaust að horfa út um gluggann byrjaði ég á nýrri ullarpeysu fyrir HB í túrnum. Þar sem ég verð bílveik ef ég horfi ekki út um gluggan átti ég ekki von á að geta gert mikið, en mikil ósköp, með því að vera með hálflokuð augu gat ég fitjað upp og prjónað stroff. Nokkuð gott. Auðvitað horfði ég líka út og gat séð að landið er ansi fallegt í frostinu. Sá samt að það er ekki mikill snjór á leiðinni austur fyrir fjall.
Að lokum eru hér nokkrar myndir frá aðfangadagskvöldi.
Börnin fyrir framan jólatréð rétt um kl. 18:00.
HB með spegilin sem hún bjó til og gaf mér og pabba sínum í jólagjöf.

DÞ með fræðslubók unga mannsins þ.e. Mannasiði frá manni sem er kanski ekki sá albesti til að fræða um siðina. Kemur samt á óvart.

Kisi fékk líka jólagjöf frá frændfólkinu í Mosarima.
Að lokum erum við mæðgurnar hér á mynd. Ég ákvað að láta mig hafa það að sýna eina mynd af mér.