Thursday, December 30, 2010

Jólagjafapakki 2

Þá er það næsti skammtur af jólagjöfum.
Ég gaf frænda mínu í Noregi útprjónað húfu og vettlingasett. Fannst tilvalið að hann ætti eitt norskt sett. Ég ákvað samt að hafa það ekta stráka og prjónaði hauskúpumynstur á það.
Svona litu vettlingarnir út

og aðeins nær


Hauskúpurnar voru ekkert mjög frýnilegar. Mér fannst hönnunin samt ótrúlega flott og hauskúpan koma vel út.

Það var líka ferlega gaman að prjóna þetta munstur enda ég ekki vön að prjóna hauskúpur og því um líkt. Þegar ég prjóna norskt munstur prjóna ég oftast áttblaðarósina eða eittvað í þeim dúr.
Svo var það húfan. Sama munstur en sett í húfu. Húfan kom líka mjög flott út. Bestu meðmælin voru þau að frændur mínir 2 sem fengu svona húfur voru farnir að nota þær. Það eru meðmæli með munstrinu.


Uppskriftina að þessu setti fékk ég á Ravelry síðunni. Hún er brunnur af uppskriftum, sérstaklega fylgihlutum.


Ég á eftir að setja inn mynd af húfunni sem Dfrændi fékk en ég hafði hana aðeins öðruvísi að neðan svo strákarnir gætu þekkt húfurnar sínar í sundur. Þfrændi fékk líka vettlinga og voru þeir brúnir og hvítir svo bræðurnir gætu þekkt þá í sundur. Ég gleymdi að taka mynd af þeim í flýtinum fyrir jól svo Ssys ef þú lest þetta þá máttu endilega taka mynd af vettlingunum og senda mér. Ekki væri heldur verra að fá mynd af strákunum í jólafjöfunum.

Sunday, December 26, 2010

Jólagjöf 1

Ein jólagjöfin sem ég bjó til í ár var vélsaumuð. Ég ákvað að sauma kjól handa Katrínu litlu frænku minni.


Málið er að ég saumaði brúðarkjól á Sólveigu systur fyrir nokkrum árum síðan. Efnið kláraðist ekki alveg heldur átti ég eftir sirka metersbút af því ásamt ræmum sem sniðust af þegar kjóllinn var sniðinn. Ég vissi aldrei hvað ég átti að gera við efnið og geymdi það með það í huga að það hlyti að koma að því að eitthvað yrði hægt að gera úr því.

Nú í desember fékk ég þá brilliant hugmynd að sauma kjól á dóttur systur minnar úr brúðarkjólaefninu. Efnið er þykkt og vandað satínsilki og bætti ég við bleikum skrautborða til að það yrði léttara yfir kjólnum.

Kjóllinn er mjög sparilegur svo nú er bara að vona að hann sé ekki of hvítur og fínn fyrir þá litlu að vera í honum. Sólveig, þú verður endilega að láta hana í hann og það verður að hafa það þó það komi blettir í hann. Vonandi er bara hægt að þv0 þá úr.

Kjóllinn er gerður fyrir 5 ára svo hún fer ekki að nota hann alveg strax enda bara 3 og 1/2. Þegar sú stutta passar í kjólinn verða ermarnar ca á miðjum framhandlegg. Það þýðir að hún getur byrjað að nota hann fyrr.
Ég held að ég þurfi eiginlega að verða mér út um mynd af Ssys í brúðarkjólnum til að sýna hann.

Thursday, December 16, 2010

Jólin koma

og verða komin áður en ég veit af. Þar sem öll handavinnan sem ég geri núna eru jólagjafir ákvað ég að sýna jólaskraut sem ég hef búið til.
Fyrir nokkrum árum bjó ég þessa engla til. Þeir eru alltaf jafn hátíðlegir og fallegir í einfaldleika sínum.
Jólasokkinn saumaði ég handa syninum. Það er ótrúlega gaman að sauma Bucilla hlutina og um leið svo einfalt. Þegar ég er að prjóna eða sauma eitthvað erfitt er gott að hafa annað einfalt með. (Hjá mér er það svona 2 - 3 erfið stykki og 4 - 5 létt stykki í gangi í einu).
Sokkurinn er einfaldur og fallegur og fær að hanga í stofunni þar sem ég neita syninum um að hafa hann í herberinu meðan það lítur út eins og útibú frá heimsins mesta sóða (ég reyni alla vega að trúa þvi að hann sé ekki mesti sóðinn).

Ég þarf að sýna mynd af mesta stoltinu mínu í jólaskrauti. Það var sko vinna í því. Kemur næst.

Thursday, December 9, 2010

Bókin

Sokkar og fleira eftir Krístínu Harðardóttir er ansi góð að mínu mati. Bókin er 72 blaðsíður og er hún ríkulega myndskreytt.

Fremst í bókinni er gott efnisyfirlit þannig að auðvelt er að finna það sem leitað er að.

Kristín skiptir bókinni upp í nokkra kafla eftir því hvernig sokkauppskriftir hún setur fram. Í upphafi hvers kafla er stutt umföllun sem er nokkuð skemmtilegt að lesa.

Það er tvennt annað sem mér finnst gera þessa bók eins góða og hún er. Það fyrra er að hún er með allt frá mjög einfaldum uppskriftir fyrir byrjendur yfir í að vera með uppskriftir fyrir prjónabrjálæðinga eins og mig sem vill ekkert of einfalt í prjónaskap. Hitt sem ég er svo hrifin af er að hún er með uppskriftir af nokkrum hælum. Ég kann að prjóna tvær gerðir af hæl, nú get ég hlakkað til að prjóna nýjar hælatýpur.

Ég held að enginn verði svikinn af því að kaupa sér bókina. Mér finnst þetta skemmtilegasta prjónabókin á markaðinum í dag. Hún gefur líka prjónurum sem eru lengra komnir verkefni til að vinna að. Mér finnst vera galli á flestum prjónabókunum sem eru gefnar út hér á landi að þær eru svo allt of einfaldar og því langar mig ekki til að kaupa þær. Það verður að vera eitthvað "challenge" í þeim.