Saturday, January 22, 2011

Jóla ennþá???

Ég prjónaði peysu handa ömmu í jólagjöf. Peysan var frá okkur stórfjölskyldunni, þ.e. mömmu, pabba, okkur systrunum 4, mönnunum okkar og börnum. Ég byrjaði tímanlega á peysunni og allt það en einhvern veginn vill það enda þannig að allt verður á síðustu stundu. Ég kláraði peysuna, skolaði úr henni og lagði til. Saumaði síðan á hana tölur og tók myndir. Það var ekki fyrr en ég skoðaði myndirnar að ég tók eftir vitleysunni sem ég gerði.

Sástu hana? Mikil ósköp, peysan var búin að liggja fyrir framan mig og ég búin að taka myndir og sá ekki að þegar ég saumaði tölurnar á hana skekkti ég munstrið. Sem betur fer var ég ekki búin að afhenda hana en ég hafði bara ca. hálftíma til að laga þetta (á Þorláksmessu) því við vorum að fara að hittast hjá ömmu og gefa henni peysuna.

En ég náði það laga hana og þá leit hún svona út. Allt annað. Munstrið stenst á og allt í himna lagi.

Það var mjög gaman að prjóna peysuna og dáldið langt síðan ég hef fengið svona áskorun eins og þetta munstur var. En uppskriftin var vel skrifuð (á norsku) og ekkert mál að fylgja henni. Útgefendur íslenskra prjónablaða mættu taka þetta sér til fyrirmyndar því stundum eru uppskriftirnar svo illa skrifaðar að það mætti ætla að þær hafi ekki verið prufuprjónaðar.

Amma var mjög ánægð með peysuna svo tilgangnum var náð og ég fór ánægð heim frá henni að klára það sem var eftir að gera fyrir jól eins og að klára að prjóna hauskúpuhúfuna hans Darra.
Eins og alltaf eru allar stafsetningavillur á ábyrgð Sólveigar systur. ;-)

Saturday, January 15, 2011

Fleiri jólagjafir

Ég prjónaði þessa húfu handa mági mínum og gaf í jólagjöf. Hún er úr alpakaull og svo ótrúlega mjúk. Alpakaullin er bæði mýkri og loftkenndari en kindaullin að mínu mati.


Svo kemur örlítil angóruáferð á hana.

Myndavélin hjá mér er greinilega ekki nógu góð því litirnir í húfunni voru brúnir. Ég valdi dökkbrúnan og millibrúnam lit sem tónuðu fallega saman. Á myndinni virðast litirnir fara út í fjólulitaðan tón. Hmm ekki nógu gott. Ólöf, ef þú lest þetta máttu taka mynd af þessari húfu fyrir mig......

og nú kemur í ljós hvort þú nennir að lesa bloggið mitt. Hehe.

Ég fann þessa fínu mynd af dýrinu sem framleiðir alpacaull. Dýrið er kallað alpaca á ensku og kemur frá suður Ameríku. Ætli það sé líka kallað alpaka á íslensku?

Friday, January 7, 2011

Jólagjafapakki 3

Þá er komið að jólagjöf númer þrjú. Ég prjónaði dúkkukjól handa 6 ára frænku minni.



Fyrir einhverju síðan bað hún mig um að prjóna sparikjól handa dúkkunni og ég ákvað að búa þennan til.



Hann er með gataprjóni neðan á og á ermunum. Enn og aftur klikkaði ég á því að það virðist ekki vera hægt að snúa mynd og setja hana inn í bloggið. Því er hún á hlið. Það hlýtur að vera komið að því að ég muni þetta og taki ekki myndir á hlið :-)


Loksins er komin helgi. Þetta er búin að vera ein lengsta vika vetrarins. Það er ótrúlega erfitt að byrja að vinna eftir gott frí, sérstaklega þegar sólarhringnum er hliðrað fram á nótt og til hádegis. Ég ætla að reyna að safna kröftum um helgina og reyna að hressa mig eftir leti- og átlífið í jólafríinu.