Thursday, April 21, 2011

Og þá koma páskar

Fyrir rúmlega ári síðan pantaði ég þennan dúk, sem kallast Kjúllakrútt, af síðunni föndur.is ( http://fondur.is/ ).

Ég setti allt í gang og byrjaði á verkefninu.


Það var skorið, myndin dregin upp á flisofix, straujað og saumað.

En svo brustu páskarnir á án þess að ég næði að klára myndina. Það tók nefnilega frekar langan tíma að handsauma myndirnar, sérstaklega þar sem það var stundum ansi þykkt að stinga í gegn og fingurnir urðu aumir. Verkefni fór því í geymslu.

Núna rétt fyrir páska mundi ég eftir dúknum og ákvað að klára hann. Ég kláraði að sauma út í myndirnar og breytti reyndar frá munstrinu því ég ákvað að nota liti sem pössuðu vel við efnið en ekki svart garn í allan sauminn.
Dúkurinn kláraðist og prýðir nú borðstofuborðið. Ég er ótrúlega montin af honum, sérstaklega þar sem þetta er fyrsta, stóra verkefnið sem ég ætla að eiga sjálf. Ég hef gert teppi og myndir en gef allt frá mér og á því ekkert bútasaums sjálf eftir mig (nema 2 myndir sem ég gerði þegar ég var að byrja í þessu og er ekki viss um að ég láti þær hanga uppi).

Svona lítur hann út.
A year ago I bought the materials and formats for this Easter fabric. I did not finish it then so I put it in storage. A few days ago I took it out again and decided to finish it for Easter. And this is how it looks like. I am very happy with it and now it decorates the diningroom table at my home.

Tuesday, April 19, 2011

Seven circle

Fyrir nokkrum mánuðum síðan (held að það telji í mánuðum frekar en ári, en tíminn er mjög afstæður hjá mér og yfirleitt skil ég ekkert í því hvað hann líður hratt) fékk uppskriftina að þessum kraga hjá Unni vinkonu minni.

Hann kallast Seven circle og er eins og sést á myndunum gerður úr 7 hringjum sem hanga saman á 6 lykkjum.



Það er mjög heitt að hafa kragan um hálsinn. Sérstaklega aftan á þar sem hann liggur þétt upp að og krumpast og er því frekar þykkur þar.



Ég prjónaði hann líklegast úr heldur þykku garni þar sem hann er aðeins of víður. En góður er hann engu að síður svo ég ætla ekki að rekja hann upp heldur nota hann eins og hann er. Ég prjóna mér líklega annan næsta haust sem verður þá úr aðeins fínna garni.



P.S. bara svo þið vitið þá er ég ekki með svona undirhöku heldur var ég að taka myndina sjálf og keyrði hausinn alltaf aftur á bak og fékk þá þessa undirhöku.

Saturday, April 9, 2011

Ný bloggsíða

sem ég fann á bloggsíðu sem einhver annar er með..... Er þetta ekki nokkuð algengt. Maður er að skoða blogg hjá einhverjum og finnur síðan inn á því bloggi flottar síður og gleymir þeim síðan. Ég ákvað að gleyma ekki þessu bloggi því það er nokkuð flott og fullt af góðum hugmyndum í því fyrir handverkskonur. Slóðin er http://myblackbook.free.fr/ . Ég mæli með því.

Thursday, April 7, 2011

Grifflur

Um daginn prjónaði ég grifflur fyrir mömmu. Þær eru einfaldar og voru fljótprjónaðar. Garnið sem ég notaði var smart, rautt með yrjum í, svona eins og tweed garn.

Uppskriftina gerði ég sjálf og er bara nokkuð ánægð með hana. Þumallinn mætti kanski vera aðeins styttri en þær verða bara hlýrri svona.


Í framhaldinu ætla ég að leika mér með mynstur í grifflurnar fyrst grunnurinn er kominn.

Sunday, April 3, 2011

Garðaprjónsvettlingar Steinunnar


eru ótrúlega flottir. Hönnunin er góð og þeir fara vel á hendi. Ég notaði skrautgarn í efsta partinn og síðan léttlopa í neðri hlutann (græna garnið)


Uppskriftina er hægt að nálgast hér http://tinyurl.com/prjoniprjon2saeti


Vettlingarnir eru gott verkefni fyrir þá sem eru ekki vanir að prjóna vettlinga eða veigra sér við að prjóna á sokkaprjóna ( 4 - 5 prjónar).

Sigga mágkona prjónaði vettlingana úr svörtum léttlopa og þeir voru mjög hipp og kúl þannig.