Monday, July 23, 2012

Fiðrildagrifflur



Aldur: 4 – 6 ára

Prjónar: Sokkaprjónar nr  3 og 3½

Garn: Smart, einn ljós og annar dökkur. Ég notað ljósbleikan og dökkbleikan

Uppskrift:

Fitjið upp  32 lykkjur með ljósara garninu á prjóna nr. 3 og prjónið stroff 1 slétt, 1 brugðin lykkja.Tengið í hring.
 Prjónið 15 umferðir (5 cm). Skiptið þá um lit og prjónið 4 umferðir stroff með dekkri litnum.
Skiptið nú yfir á  prjóna nr 3½ og prjónið slétt prjón með dekkri litnum. Prjónið 4 umferðir slétt. Þá er komið að því að auka út fyrir þumalfingri.


Þumaltunga

 Prjónið fyrstu lykkjuna á fyrsta prjóni og aukið síðan um 1 lykkju með því að prjóna bandið á milli fyrstu og annarar lykkju snúið. Prjónið áfram þar til 1 lykkja er eftir á síðasta prjóninum, aukið þá um 1 lykkju með því að prjóna bandið á milli lykkjanna snúið. Prjónið 2 umferðir án útaukningar. Endurtakið þessar 3 umferðir tvisvar sinnum í viðbót, alls 9 umferðir. Þá eru komnar 8 lykkjur sem mynda þumaltunguna. Þessar 8 lykkjur eru núna geymdar á bandi eða prjónanælu og 4 lykkjur fitjaðar upp. Þá eru 34 lykkjur á prjónunum.


Prjónið nú áfram þar til öll grifflan mælist 14 cm. Þá eru prjónaðar 4 umferðir perluprjón þ.e. 1 lykkja slétt og 1 lykkja bruðgðin og sléttu og brugðnu lykkjurnar látnar stangast á ( brugðin lykkja prjónast yfir slétta lykkju og slétt lykkja prjónast yfir brugðna lykkju).

Eftir þessar 4 umferðir er fellt af.

Þumall:
Prjónið lykkjurnar 8 sem voru geymdar og prjónið upp 4 lykkjur í þær lykkjur sem voru fitjaðar upp í þumalgrófinni. Prjónið 3 umferðir slétt og síðan 3 umferðir  stroff  þannig að 2 sléttar lykkjur eru prjónaðar og síðan 1 brugðin lykkja. Fellið laust af.

Prjónið aðra grifflu eins og þá sem er búin.

Fiðrildi:


 Fitjði upp 7 lykkjur á prjóna nr. 3½. Prjónið slétt prjón 5 umferðir. Pjónið næstu umferð þannig: prjónið 3 lykkjur saman, prjónið 1 lykkju, prjónið 3 lykkjur saman. Nú eru 3 lykkjur á prjóninum. Prjónið til baka. Prjónið næstu umferð þannig: Prjónið þrisvar í sömu lykkjuna þannig að farið er framan og aftan í lykkjuna, prjónið 1 lykkju og prjónið síðan þrisvar í sömu lykkkjuna. Þá eru aftur komnar 7 lykkjur á prjóninn. Prjónið 5 umferðir og fellið af.  Prjónið annað stykki eins.

Frágangur:

Gangið frá öllum endum.

Fiðrildið er saumað á handarbak grifflunnar. Leggið fiðrildið þannig að það liggi slétt yfir griffluna og kipri hana ekki saman. Saumið niður hliðarnar (enda vængjanna) og það er fínt að nota frágangsendann til þess. Miðjan er síðan fest niður og ég vafði endanum 3 sinnum í kring um hana til að fá hana aðeins þykkari. Ég saumaði síðan angana út frá búknum og það er auðvelt að ákveða hversu langir þeir eiga að vera. Mínir angar eru 1½ cm að lengd.

Síðan er einnig hægt að sleppa þvi að hafa þetta sem fiðrildi og nota stykkið sem slaufu.

Njótið
Anna Fanney


No comments:

Post a Comment