Monday, August 17, 2009

Noregur


Ég mátti til með að setja inn myndir frá Noregsferðinni. Við byrjuðum í Osló og heimsóttum
Kristínu vinkonu og börnin hennar. Það var svo gaman að hitta þau því það er langt síðan síðast, næstum því ár. Kristín var höfðingi heim að sækja og dekraði við okkur á allan hátt. Fyrsta kvöldið var auðvitað boðið upp á íslenskt lambalæri enda fátt sem slær þeim mat við.



Auðvitað var farið í bæinn og þar vorum við Kristín búnar að mæla okkur móts við Guðrúnu vinkonu okkar sem við höfðum ekki hitt í ein 13 ár eða svo. Samt var eins og við hefðum hist fyrir nokkrum vikum síðan. Það þurfti bara að gera grein fyrir því sem hafði gerst á þessum árum.

Guðrún og Kristín
Hér er Kristín með börnin sín Jasmin og Elias.
Á þessari mynd er Herdís hjá flotta gosbrunninum sem er á torginu fyrir framan Stortinget
(samt nær lestarstöðinni).

Við fórum á Vísindasafn sem er í Osló og þar atti Herdís kappi við þessa beinagrind í kappróðri.



Þegar tíminn í Osló var uppurinn (og leið allt of hratt) var haldið til Sandnes sem er úthverfi Stavanger (svona eins og Kópavogur er við Reykjavík nema miklu miklu stærri). Eftir 10 tíma ferðalag vorum við komin heim til Sólveigar systur, Inga, Þórs, Magnúsar og Katrínar.

Þar eins og í Osló var til skiptis sól og blíða eða rigning. Þar sem við elskum mat verð ég að segja frá að eitt góðviðriskvöldið höfðum við rækjur og brauð í matinn. Þá pillar maður rækjunrnar úr skelinni og setur á brauð, síðan er bætt við majónesi og sítrónusafa og góðgætinu skolað niður með gosi eða hvítvíni, fer eftir aldri.
Veðrið var ótrúlega gott i nokkra daga og var meðal annars farið á ströndina en sökum spéhræðslu minnar og það að vilja ekki móðga neinn ákvað ég að setja ekki inn myndir frá þeirri ferð.
Aftur á móti eru hér myndir af skemmtilegri tívolíferð sem við fórum öll í. Garðurinn heitir Kongeparkenn og þar voru tæki fyrir alla, líka konur eins og mig sem verða flökurt við minnsta snúning (ekki aldurinn held ég, ég er svo ung hehe).
Í garðinum var meira að segja svæði fyrir týnda foreldra sem gátu sest niður og fengið sér eitthvað gott að drekka þar til börnin fundu þá.
Svo í restina eru hér myndir af miðbænum í Stavanger og svo ein af stóra stráknum mínum sem fór í ótrúlega þægilegan nuddlazyboy sem var í Leiklandi sem við fórum í.
Eitt var alveg ótrúlegt. Einn daginn, yndislegt veður og allt það, ætluðum við að sitja úti og sóla okkur en það sem tók á móti okkur var þvílík skítafíla að annað eins þekkist varla. Bændurnir í nágrenni Sandnes höfðu borið svínaskít á túnin hjá sér og allt byggðarlagið lyktaði viðbjóðslega. Ótrúlegt að þetta skuli vera leyft.
Allt í allt var ferðin alveg frábær. Mótökurnar æðislegar og allt lék við okkur. Takk fyrir móttökukrnar elsku systir og vinkona.

No comments:

Post a Comment