Monday, February 22, 2010

Öðruvísi lopapeysa

Stærð: M

Garn: Plötulopi (2 plötur), skrautgarn 1 fyrir prjóna nr. 2,5 – 3 (4 - 5 dokkur), skrautgarn 2 með móhair fyrir prjóna nr. 5 (3 dokkur).

Prjónar nr. 5

8 tölur

Prjónfesta: 10 x 10 cm eru 17 lykkjur og 24 umferðir á þveginni prufu.

Bolur:
Bolurinn er prjónaður í einu stykki, fram og til baka. (Ef hann er prjónaður heill þarf að bæta við 2 – 4 lykkjum til að klippa stykkið í sundur.)

Fitjið upp 148 lykkjur með skrautgarni 2 á prjóna nr. 5.

Prjónið stroff á eftirfarandi hátt: *Ein umferð slétt, tvær umferðir 1 lykkja slétt og 1 lykkja brugðin*. Prjónið þessa 3 prjóna þar til allt stykkið mælist 5 cm.

Eftir það er prjónað slétt prjón með einföldum plötulopa og skrautgarni 1. Prjónið þar til allt stykkið mælist 24 cm.

Nú er tekið úr fyrir mitti: Fellið af 4 lykkjur jafn dreift yfir stykkið þ.e. 1 lykkja á fyrra framstykki, 2 lykkjur á bakstykki og 1 lykkja á seinna framstykki. Prjónið 3 umferðir. Fellið aftur af 4 lykkjur jafn dreift yfir stykkið. Núna eru 140 lykkjur á prjóninum.

Prjónið nú þar til allt stykkið mælist 31 cm. Þá er aukið um 4 lykkjur jafnt dreift yfir stykkið. Nú eru 144 lykkjur á prjóninum.

Prjónið nú þar til allt stykkið mælist 41 cm. Þá eru prjónaðar 31 lykkja, 8 lykkjur eru settar á band og geymdar, prjónið 66 lykkjur, 8 lykkjur eru settar á band og geymdar, prjónið 31 lykkju.

Nú er þetta stykki geymt.

Ermar:
Fitjið upp 41lykkju með skrautgarni 2 á prjóna nr. 5. Tengið í hring og prjónið stroff eins og á bol þar til ermin mælist 5 cm. Skiptið þá yfir í lopa og skrautgarn 1 og prjónið slétt prjón þar til allt mælist 14 cm. Aukið þá út um 2 lykkjur undir ermi á 10 cm fresti þar til 54 lykkjur eru komnar á prjóninn. Prjónið þar til ermin mælist 50 cm. Setjið þá 8 lykkjur af undirerminni á hjálparprjón eða band og geymið ermina.

Prjónið hina ermina eins.

Berustykki:
Tengið saman bol og ermar á eftirfarandi hátt: Prjónið 31 lykkju af bol, prjónið ermi við, prjónið bakstykkið, prjónið ermi við, prjónið 31 lykkju. Nú er búið að tengja saman þá hluti sem mynda berustykkið.
Prjónið þá á eftirfarandi hátt:
Prjónið 14 umferðir. Prjónið þá saman 7. og 8. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 4 umferðir. Prjónið saman 6. og 7. lykkjurnar allan hringinn.
Pjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 5. og 6. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 4. og 5. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 3. og 4. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 4 umferðir. Í næstu umferð eru felldar af 7 lykkjur jafn dreift yfir umferðina.

Nú eru alls 80 lykkjur á prjóninum. Klippið garnið frá og skiptið yfir í skrautgarn 2
Prjónið hálsmál.

Hálsmál:
Prjónið með skrautgarni 2 yfir lykkjurnar 80 eins stroff og er á bolnum. Prjónið 6 cm. Fellið af.

Vinstri kantur:
Prjónið upp 114 lykkjur með lopa og skrautgarni 1 á prjóna nr. 5 meðfram allri hliðinni, hálsmál meðtalið. Prjónið stroff eins og á bol. Prjónið 6 umferðir. Prjónið síðan 1 umferð með skrautgarni og fellið af.

Hægri kantur:
Er prjónaður eins og vinstri kantur nema að í þriðju umferð er fellt af fyrir hnappagötum þannig: Prjónið 9 lykkjur, slá bandinu yfir prjóninn og prjónið 2 lykkjur saman. *Prjónið 12 lykkjur, sláið þá bandinu yfir prjóninn og prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtakið frá * til * þar til 8 hnappagöt hafa myndast.

Frágangur:
Lykkið saman undir höndunum, gangið frá endum og saumið tölur á peysuna.

Thursday, February 18, 2010

Teppið

Ég gleymdi að setja inn mynd af teppinu hennar mömmu eins og það lítur út (allar myndirnar saman). Gullfallegt og hangir upp á vegg hjá HB.


Tuesday, February 16, 2010

Bútasaumur

Ég ákvað að setja inn myndir af bútasaumsteppi sem mamma mín gaf heimasætunni í afmælisgjöf. Þetta er með fallegri teppum sem ég hef séð og hún er núna búin að búa til eitt teppi handa öllum þremur heimasætum fjölskyldunnar.
Það sést ekki nógu vel á myndunum að hún er búin að sauma út í þær til að gera þær flottari.
Fyrst er það skautastelpan því HB er að æfa skauta.

Svo er það blómastelpa og mér finnst það skemmtileg tilviljun (eða ekki) því á tímabili vildi HB láta kalla sig "Blóma" því það var svo flott nafn. (Hún var líklega um 4 - 5 ára þá)

Svo er það hauststelpan

og að lokum sumarstelpan.

Gó mamma, halda svona áfram því þetta er svo flott hjá þér.

Wednesday, January 20, 2010

Prjóni prjóni prjóni .....

er eitthvað skemmtilegra en það. Jú, örugglega eitthvað sem er allavega jafn skemmtilegt en ekki margt sem er skemmtilegra. Samt kanski eitthvað .... hmmmmm. Látum staðar numið.

Ég veit að systrum mínum sem eru ekki eins hrifnar af því að prjóna og ég geta eflaust talið upp fullt af einhverju sem þeim finnst skemmtilegra að gera en að prjóna.

Nú er ég nýlega búin að klára 2 verkefni. Annað er sjalið sem ég setti inn eftirfarandi myndir af. Hitt er kragi sem ég set inn seinna.
Sjalið er prjónað úr einföldum plötulopa og einbandi. Ég notaði uppskrift úr gömlu prjónablaðinu Ýr. Það væri í rauninni ágætt að minnka lykkjufjöldan aðeins því þessi samsetning virðist vera aðeins grófari en uppskriftin miðast við.

Eins og sést er ekki um hefðbunið sjal að ræða heldur þetta sem sést hér. Lögunin er frekar skemmtileg og það liggur ótrúlega vel yfir axlir og bak og fer ekki í krumpu og þykkildi þegar búið er að binda það sama.


Munstirð var einfalt hálfklukkuprjón. Þegar búið var að prjóna axlar- og bakhlutann voru teknar upp lykkjur og framhlutinn prjónaður.

Ég ákvað að vera djörf og birta myndir af frúnni íklæddri sjalinu. Fyrst bakhlutinn.....

og síðan framhlutinn.

Ég stóðst ekki mátið að setja líka inn myndir af peysunni sem 5 ára frænkan fékk í jólagjöf. Þetta er hefðbunin norsk peysa með áttblaðarósarmynstri. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég geri bleika, norska peysu og mér til mikillar gleði gekk það alveg upp. Reyndar munar miklu að ég skyldi ákveða að nota svartan lit með. Við það datt þetta væmna út sem annars hefði getað orðið.
Svona leit berustykkið út.....

og svona var neðan á peysunni og framan á ermunum....

og svona leit peysan út.

Það var ferlega gaman að prjóna hana og ég er ánægð með afraksturinn og enn ánægðari með knúsið sem ég fékk fyrir hana.

Wednesday, January 13, 2010

Candy stripe húfa

Ég ákvað að setja inn myndir af litríkustu húfunni sem ég hef gert í langan tíma. Ég byrjaði á því að kalla hana candyflos húfuna því mér fannst hún eins og candyflos en þegar jólatíminn kom fannst einhverjum (sem ég man ómöglega hver var) húfan vera eins og candystripe brjóstsykur og mér fannst það bara alveg rétt.

Húfan er prjónuð þannig að kollurinn er prjónaður fyrst og er í annarri hverri umferð aukið um 1 lykku í öðrum endanum og 2 lykkjur prjónaðar saman í hinum endanum. Þegar óskaðri lengd utan um höfuðið er náð er fellt af og saumað saman í hliðinni.



Að því loknu eru prjónaðar upp lykkjur og stroff prjónað í óskaða lengd.

Síðast er bandi þrætt í gegn um kollinn og rykkt saman. Gengið frá endum.


Einfalt, ekki satt.

Hér er síðan heimasætan með húfuna á sér en hún var tilbúin til að vera módel fyrir mig enda myndast hún miklu betur en ég nokkurn tíman.

Saturday, January 2, 2010

Nýárskveðja

Ég óska þér gleðilegs og farsælt árs. Takk fyrir það gamla.

Það er alveg ótrúlegt hvað desember og sérstaklega jóladagarnir líða hratt. Það er eins og allt sé á hraðspólun þennan mánuð. Ég er búin að eiga alveg yndislegan tíma. Búin að hitta fjölskylduna heilmikið (saknaði þeirra í Noregi), borða helling af góðum mat, kom sjálfri mér á óvart með hvað ég gat búið til góðan mat, fyllast góðum anda og ró (afslöppun frá álaginu í vinnunni, hehe), fá góðar gjafir og horfa á fullt af rakettum puðrast upp í loft og annað eins sprengt á jörðu niðri.

Í dag keyrðum við síðan út fyrir bæinn til að sjá vetrarríkið Ísland. Svona af því að ég nenni ekki endalaust að horfa út um gluggann byrjaði ég á nýrri ullarpeysu fyrir HB í túrnum. Þar sem ég verð bílveik ef ég horfi ekki út um gluggan átti ég ekki von á að geta gert mikið, en mikil ósköp, með því að vera með hálflokuð augu gat ég fitjað upp og prjónað stroff. Nokkuð gott. Auðvitað horfði ég líka út og gat séð að landið er ansi fallegt í frostinu. Sá samt að það er ekki mikill snjór á leiðinni austur fyrir fjall.
Að lokum eru hér nokkrar myndir frá aðfangadagskvöldi.
Börnin fyrir framan jólatréð rétt um kl. 18:00.
HB með spegilin sem hún bjó til og gaf mér og pabba sínum í jólagjöf.

DÞ með fræðslubók unga mannsins þ.e. Mannasiði frá manni sem er kanski ekki sá albesti til að fræða um siðina. Kemur samt á óvart.

Kisi fékk líka jólagjöf frá frændfólkinu í Mosarima.
Að lokum erum við mæðgurnar hér á mynd. Ég ákvað að láta mig hafa það að sýna eina mynd af mér.

Monday, December 28, 2009

Jólagjafirnar - prjónuðu

Þá er komið að því að sýna jólagjafirnar sem ég prjónaði og gaf. Ég hef reyndar ekki tekið myndir af bleiku peysunni sem ég gerði svo ég verð að setja inn myndir af henni síðar.

Fyrst er að sýna vettlinga sem ég gerði fyrir pabba minn. Ég prjónaði þá úr alpaca garni sem ég keypti í Rúmfatalagernum og er þetta garn æðislegt viðkomu. Það er mjúkt og gefur fallega áferð.
Uppskriftina fann ég á ganstudio.dk. Þar eru þeir reyndar prjónaðir úr fíngerðara garni en með því að auka grófleikann fékk ég stærri vettlinga sem pössuðu á karlmannshönd.

Næst er að sýna bangsan sem Katrín fékk. Á einhverju þarf að byrja og ég byrjaði á því að prjóna fæturnar á bangsann. Nauðsynlegt að hafa undirstöðurnar traustar...

Næst var að klára að prjóna alla líkamsparta og sauma þá saman. Þar sem hvíta garnið kláraðist varð bangsinn að fara í nærbuxur og fékk hann þessar líka fínu bleiku.

Því næst var að staðsetja eyrun á hann og sauma andlitið á.

Að lokum var að dressa bangsa upp og úr varð þessi líka fíni ballerínubangsi í tútupilsi og allt...

Nú er komið að sokkunum sem ég prjónaði. Ólöf systir fékk þessa útprjónuðu sokka. Þeir eru með gatamunstri sem er þannig að ekki var hægt að horfa á sjónvarp þegar það var prjónað. Það varð að einbeita sér algjörlega að munstrinu.

En afraksturinn var þannig að það var þess virði að einbeita sér svona að þeim. Ég var svakalega ánægð með sokkana og ætla að prjóna svona handa mér líka....... einhverntíman.


Ein mynd í viðbót, þeir eru svo flottir ;-)

Ruben fékk líka sokka í jólagjöf. Þeir voru þægilegir í prjónun en mjög fínir. Munstrið var skemmtilegt og kom vel út í sokkunum. Mér finnst miklu skemmtilegta að prjóna svona sokka heldur en hefðbundna með stroffi og sléttum prjóni en engu munstir.

Bæði sokkapörin voru prjónuð úr Sisu ullargarni og kom það mjög vel út í þeim.

Ég þarf að útvega mér myndir af peysunni sem Karen fékk. Ég skil bara ekkert í mér að hafa gleymt að mynda hana. Það hefur verið komið einum of mikið jólastress í mig þarna rétt fyrir jól.

Tuesday, December 15, 2009

Knitty komið út

Veiiiii, Knitty er komið út. Þetta er ókeypis prjónablað á netinu þar sem áhugahönnuðir og nýir hönnuðir koma sér á framfæri. Þarna er fullt, fullt af flottum uppskriftum. Ég á heldur betur eftir að leggjast vel í að skoða vetrarblaðið. Svo eru hönnuðirnir með slóð á netsíður eða blogg og þar er enn meira að skoða.
Hef ekki tíma í meira, verð að fara að skoða uppskriftir.
Úps, já, hér er slóðin http://knitty.com/ISSUEwinter09/patterns.php
Bon appetit eða hvernig sem það er skrifað!!! ;-)

Friday, November 27, 2009

Þetta er lífið.....

Þetta er lífið. Fullt af garni og nóg að prjóna. Ég hefði líka átt að setja inn mynd af bókahrúguni sem ég er með til að lesa. Sumir kalla þetta stjórnleysi en mér finnst þetta æðislegt.


Litirnir eru æðislegir, endalaust til af prjónablöðum og prjónabókum og svo eru náttúrulega allar hugmyndirnar sem ég fæ og þarf tíma til að vinna úr. Kanski kemur hann einhvern tíman.

Þar sem aðal prjónið núna eru jólagjafir og ég get ekki birt myndir af þeim strax ákvað ég að setja inn myndir af púðum sem ég gaf litlum ættingjum í afmælisgjafir fyrir nokkrum árum. Ég sé að ég hef eitthvað klikkað á að taka myndir af öllum púðunum en set þessar sem ég á.


Ég teiknaði sjálf bangsan á púðanum hans Magnúsar og er frekar stolt af því. Þetta er eina formið sem ég hef sjálf teiknað fyrir bútasaum.


Svo er þetta týpiskt með börn handavinnukonu, mín börn eiga enga svona púða. Ég þarf að reyna að bæta úr því, en kanski er það að verða of seint með DÞ. Ég þyrfti líklega að finna eitthvað anim til að setja á púða fyrir hann eða kanski láta hann teikna sjálfan mynd..... Það er góð hugmynd. :-)

Wednesday, November 4, 2009

Handstúkur 1

Prjónar nr 3




Garn sem hæfir prjónastærð. Ég hef notað Lanett og Dale baby.

Handstúkurnar eru prjónaðar á 5 prjóna.




Munstur:


Kaðall :


1. - 3. umf: Prjóna 1 brugðna lykkju, 4 sléttar, 1 brugðna lykkju.

4. umf: prj 1 brugðna lykkju, setja 2 lykkjur á hjálparprjón, prjóna 2 lykkjur, prjóna lykkjur af hjálparprjóninum, prjóna 1 brugðna lykkju.

Endurtakið þessar 4 umf.




Gataprjón:


1. umf: Slá bandi yfir prjóninn, taka 1 lykkju óprjónaða, prjóna 1 lykkju, steypa óprjónuðu lykkjunni yfir, prjóna 1 lykkju, prjóna 2 lykkjur saman, slá bandinu yfir prjóninn

2. umf: Slétt prjón

3. umf: Prjóna 1 lykkju, taka 1 lykkju óprjónaða, prjóna 2 lykkjur saman, steypa óprjónuðu lykkjunni yfir, slá bandi yfir prjóninn, prjóna 1 lykkju

4 umf: prjóna slétt

Endurtaka þessar 4 umf.



Fitjið upp 60 lykkjur. Prjónið stroff á eftirfarandi hátt.


1. umf: 1 lykkja slétt, 1 lykkja brugðin

2 umf: slétt

Endurtakið þessar 2 umf. 4 sinnum.



Eftir það er prjónað slétt. Munstur er staðsett þegar byrjað er að prjóna slétt.


Staðsetning munsturs: Prjónið 27 lykkjur , prjónið munstur yfir næstu 6 lykkjurnar, prjónið 27 lykkjur.


Prjónið 7 cm. Þá á að taka 2 lykkjur úr hvorri hlið og hafa 2 lykkjur á milli úrtakanna.


Prjónið þar til allt stykkið mælist 13 cm, takið þá 2 lykkjur úr hvorri hlið (eins og eftir 7 cm.).


Prjónið þar til allt stykkið mælist 17 cm. Aukið þá út um 2 lykkjur í hvorri hlið og hafið 2 lykkjur á milli útaukninganna.


Prjónið 4 umf. Aukið þá út um 2 lykkjur þumalfingursmeginn.


Prjónið 6 umf. Aukið út um 2 lykkjur í hvorri hlið.


Prjónið þar til allt stykkið mælist 22 cm.


Nú er þumall staðsettur fyrir hægti hönd: Prjónið fyrstu 8 lykkjurnar yfir á hjálparband, setjið þær aftur upp á prjóninn og prjónið slétt þar til allt stykkið mælist 27 cm. Prjónið þá 4 umf stroff. Fellið af.



Þumall: Takið upp samtals 19 lykkur og prjónið 4 umf. slétt. Prjónið síðan 4 umf stroff. Fellið af.



Prjónið hina handstúkuna eins nema staðsetjið þumalinn á síðustu 8 lykkjurnar á prjóni 2. Það þarf að passa að hann verði spegilmynd handstúkunnar sem er búin.



Frágangur: Gangið frá öllum endum.