Tuesday, November 9, 2010

Hringur

Mér datt í hug um daginn að hekla mér hring. Ég hef séð svo marga fallega heklaða hringi að ég varð að prufa. Ég notað frekar "villt" garn. Ég er hrifin af útkomunni. Ég er að hugsa um að kalla hann Villiblómavönd því einn mætur maður lýsit honum þannig að það væri eins og ég væri með villiblómavönd á fingrinum.
Það var mun auðveldara að gera hringinn en ég átti von á. Það var í rauninni mun erfiðar að ráða við garnið og finna lykkjurnar heldur en að hekla formið.

Ég er voða ánægð með hann og nota hann reglulega. Hann er frekar stór svo ég var að hugsa umað gera mér annan minni úr "rólegra" garni. (púff, ekki horfa á hendurnar, ég sé að ég þarf að fara að gera eitthvað við þær svo ég verði aðeins dömulegri)

Svona lítur hann út. Ég heklaði líka bandið utan um fingurinn í stað þess að setja hann á málmhring eins og ég hef séð gert við mörg blómin. Mér fannst þetta ágæt lausn sérstaklega þar sem átti engan hring að sauma blómið á og langaði að klára hann strax. Ekki mikil þolinmæði þegar verið er að hanna eitthvað fínerí og andinn kemur yfir mig.
Jólagjafirnar eru í fullri framleiðslu. Vonandi klárast þær allar fyrir jól og þá koma myndir.

Wednesday, November 3, 2010

Eitthvað flott

Ahhh, að eiga góða prjónatösku fulla af einhverju skemmtilegu er nauðsynlegt. Ég á tvær. Og fulla hillu, og nokkra poka, og fulla kistu og .... úff nú er ég að ganga fram af sjálfri mér. Ég held að áramótaheitið í ár ætti að vera að vinna úr birgðunum til að reyna að grynnka á þeim.

Freistingarnar eru bara svo margar. Ég segi alltaf ef einhver er hissa á öllu garninu sem ég á að það var eins gott að ég féll fyrir garni en ekki einhverju öðru eins og víni. Ég veit ekki hvar ég væri stödd þá. En ég held að ég sé eins og alki í vínbúð þegar ég fer í garnbúð, mig langar í allt og á ótrúlega eftitt með að velja og ekki að ræða það að labba út með ekkert í poka.

Þetta garn keypti ég í garnbúðinni í Hveragerði. Það er ótrúlega mjúkt og gott viðkomu og samt 100% ull. Unnur, sem er með mér í Prjónapínum, er búin að prjóna sjal úr sínu garni og það er svo mjúkt viðkomu að meira að segja ég gæti verið með það um hálsinn og ekkert á milli. Ég þarf að fara að prjóna eitthvað úr því. Þegar jólagjafirnar klárast....... vonandi fyrir miðnætti á Þorláksmessu........ og engir tveir eins vettlingar á vinstri........ og enginn á hægri!!!!


Monday, October 25, 2010

Norsk peysa

Það er svo gaman að prjóna norskar peysur, sérstaklega ef mynstrið er krefjandi. Fyrir ekki svo löngu fór ég inn á Sandnes vefinn en þar er framleitt allt smart og alpakka og fleira garn sem ég prjóna dáldið mikið úr. Þar sá ég þetta blað



Það virkaði ekki hjá mér að snúa myndinni svo þið verðið bara að halla höfðinu. En í blaðinu var þessi uppskrift


Ég féll algjörlega fyrir henni. Litatónarnir eru nýjir, að minnsta kosti man ég ekki eftir því að hafa séð margar norskar peysur með fjólubláum tóni í.
Ég fór á stúfana og leitaði í öllum Rúmfatalagers búðunum að blaðinu en það var ekki til þar. Ég var að spá í hvort það væri ekki flutt inn til landsins.
Svo vel vildi til að mamma og pabbi fóru til Noregs í haust og mamma fékk það verkefni að kaupa blaðið fyrir mig. Hún fann það í garnbúð í Sandnes en það sem okkur fannst nokkuð spes var að til að fá að kaupa blaðið varð hún að kaupa eitthvað garn í búðinni. Ég græddi því 4 dokkur af Smart.
Ég er byrjuð á peysunni og komin svona langt

Munstirð er gullfallegt og mjög gaman að prjóna það. Garnið er bara yndislegt en ég prjóna hana úr Sandnes Alpakka.

Ég er líka byrjuð á ermunum því það er ekki hægt að prjóna þetta munstur við sjónvarpið, það er allt of flókið til þess. Svo er bara að hætta að blogga og fara að prjóna......

Tuesday, October 19, 2010

Hafmeyjan


Ég er búin að lesa Hafmeyjuna eftir Camillu Låckberg. Hún var æði. Ég gat ekki lagt hana frá mér eftir að ég var komin vel af stað með hana. Og endirinn, ég varð að kaupa mér næstu bók til að sjá hvernig fór. Þessi kona er alveg frábær rithöfundur. Ég get eindregið mælt með þessar bók fyrir þá sem eru hrifnir af spennusögum sem eru líka fjölskyldusaga.

Tuesday, October 5, 2010

Húfa - Karen


Stærð: 6 – 8 ára

Garn: Smart frá Sandnes, 1 dokka aðalllitur og ein dokka af þeim litum sem eru notaðir í munstur. Gott er að nota einn af munsturlitunum í kanntin neðan á húfunni.


Prjónar: Ermaprjónar og sokkaprjónar nr. 3,5



Prjónfesta: Eins og gefin er upp fyrir garnið.


Athugið að ég gef ekki upp munstrið í húfunni þar sem ég fékk það lánað annars staðar frá. Auðvelt er að nota hvaða munstur sem er, bara þarf að gæta þess að það passi við lykkjufjöldann.



Byrjað er á að prjóna eyrun.
Eyra:
Fitjið upp 5 lykkjur og prjónið slétt prjón.
Prjónið 1 umferð.
Nú hefst útaukning.
Prjónið 2 lykkjur, aukið um 1 lykkju, prjónið 1 lykkju, aukið um 1 lykkju, prjónið 2 lykkjur.
Nú eru 7 lykkju á prjóninum
Prjónið 1 umferð slétt til baka.
Þessar 2 umferðir eru prjónaðar þar til 23 lykkjur eru á prjóninum.
Gætið þess að alltaf er aukið út eftir fyrstu 2 lykkjurnar og fyrir síðustu 2 lykkjurnar.
Prjónið áfram þar til allt mælist 6 cm. Geymið.
Prjónið annað eyrnastykki alveg eins.



Húfa:
Prjónið eyra, fitjið upp 18 lykkjur (bak), prjónið hitt eyrað, fitjið upp 44 lykkjur (fram). Tengið saman í hring.
Þá eru 108 lykkjur á prjóninum.
Prjónið 3 umferðir.
Aukið í næstu umferð út um 1 lykkju fyrir ofan hvort eyra, 110 lykkjur eru á prjóninum.
Prjónið þar til allt mælist 15 cm.



Nú hefst úrtaka fyrir kollinn:
Úrtaka: Prjónið 9 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Þetta er endurtekið allan hringinn og þá eru 100 lykkjur á prjóninum.
Prjónið 2 umferðir án úrtöku.
Úrtaka: Prjónið 8 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Þetta er endurtekið allan hringinn. Prjónið 2 umferðir án úrtöku.
Úrtaka: Prjónið 7 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Þetta er endurtekið allan hringinn. Prjónið 1 umferðir án úrtöku.
Þessi úrtaka er prjónuð áfram þar sem alltaf er einni lykkju minna á milli úrtakanna.
Prjónið svona þar til 10 lykkjur eru eftir á prjóninum.
Prjónið þá 6 umferðir án úrtöku.
Klippið þá bandið og dragið í gegn um lykkjurnar.



Kanntur:
Byrjið við miðju að aftan. Takið upp 1 lykkju í hverja prjónaða lykku framan og aftan á. Á eyrunum er teknar upp 2 lykkjur í hverjar 3 en passa þarf að við oddinn þarf að taka upp ca 3 lykkjur svo eyrað herpist ekki saman neðst.
Prjónið 4 garða.
Fellið laust af. Gott er að nota prjóna nr. 5 til að fella af með, þá eru minni líkur á að kannturinn herpist saman.



Frágangur: Gangið frá ölllum endum.

Thursday, September 23, 2010

Appelsínukragi



Þessi kragi er ferlega hlýr og þægilegur. Hjá mér var mikilvægt að velja garn sem styngi ekki og þess vegna prjónaði ég hann úr merinóull. Vegna úrtökunnar sem er í kraganum hangir hann ekki niður heldur helst þokkalega vel uppi.

Litlir hringprjónar nr. 3,5

1 hnota/dokka af garni sem passar fyrir prjónana

Munstur:
* Prjónið 8 lykkjur, slá bandi yfir prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtekið frá * til * út hringinn. Prjónið 1 umferð slétt prjón. (Þegar kemur að úrtöku fækkar lykkjunum 8 fyrst í 7 lykkjur og síðan í 6 lykkjur.)

Kragi:
Fitjið upp 120 lykkjur og prjónið 3 garða. Tengið í hring. Prjónið munstur allan hringinn. Þá eiga að vera 12 munstur.

Prjónið 5 cm.

Pjónið þá * 7 lykkjur , slá bandi yfir prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtekið frá * til * út hringinn. Þá eru 108 lykkjur á prjóninum.

Prjónið þar til stykkið mælist 10 cm.

Pjónið þá * 6 lykkjur , slá bandi yfir prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtekið frá * til * út hringinn. Þá eru 96 lykkjur á prjóninum.

Prjónið þar til allt mælist 15 cm.

Prjónið 4 garða.

Fellið laust af. Gott er að nota prjón nr. 5 til að fella af með. Þá fæst úrtaka sem er nógu laus til að komast auðveldlega yfir höfuð.

Thursday, September 16, 2010

Svo sætur

Hvað er friðsælla en að sjá kött sofa? Ég varð næstum öfundsjúk út í að hægt væri að sofa svona vel. Kötturinn haggaðist ekki þó ég tæki nokkrar myndir af honum.
Hann lét ekki einu sinni rifa í augun. Bara steinsvaf. Hann er ekki alltaf svona rólegur. Núna truflar draslið í stólnum hann og er hann farinn að bregða á það ráð að taka hnyklana og teppið í kjaftinn og draga fram á gólf. Það er ótrúlega fyndið að sjá hann böglast með þetta og þess vegna set ég garnið aftur upp í stólinn til að geta hlegið meira.

Sunday, September 12, 2010

Rauðu hanskarnir

eru búnir fyrir nokkru síðan. Það tók sinn tíma að skola úr þeim og leggja þá til og að því loknu að taka mynd af þeim.
Útkoman er þessi


Þeir eru fagurrauðir með gylltum þræði í, prjónaðir úr sisu garni. Garnið er fallegt þannig að útkoman verður fín.

HB á þá og bara ánægð með þá. Ég hélt fyrst að þeir gætu orðið of jólalegir en það er ekki. Um leið og það fer að kólna getur hún notað þá.

Ég get nú ekki sagt að hanskar sé það skemmtilegasta sem ég prjóna. Ónei, þeir eru seinlegir og mér fannst ég alltaf vera að gera það sama þegar ég prjónaði fingur eftir fingur. (Ótrúlegt tillitsleysi við prjónafólk að maðurinn skuli vera með 10 fingur). En þar sem útkoman var góð á ég kanski eftir að nenna að prjóna annað hanskapar. Ég lofa samt engu....

Thursday, September 9, 2010

Þegar kóngur kom

er alveg ótrúlega skemmtileg bók. Ég kláraði hana fyrir stuttu síðan og hafði verulega gaman af því að lesa hana. Er enn að hugsa um hvort hún sé sannsöguleg eða ekki svo vel er hún skrifuð.
Meðan ég var að lesa hana fórum við Gunni á Árbæjarsafn. (Hann var búin að lesa bókina) Megnið af tímanum þar fór í að skoða húsin og athuga hvenær þau voru byggð. Ef þau voru frá þeim tima sem sagan gerist fórum við inn og skoðuðum húsið. Ég held að það hafi sjaldan verið jafn gaman að heimsækja safnið. Ekki skaðaði að þar var einnig markaður og keypti ég þá bestu chillisultu sem ég hef smakkað (líklegast sú eina sem ég hef smakkað ;-)Ég væri alveg til í að prófa að búa til svona sultu svo ef einhver á uppskrift sem ég má fá eða getur bent mér á síðu með góðri uppskrift þá væri það vel þegið.
Annars er ég búin að búa til rifsberjahlaup og sólberjahlaup með Ólöfu systur. Rifberjahlaupið er mjög gott en ég enn að bíða eftir að sólberjahlaupið verði þykkt svo hægt sé að borða það. Með þessu er ég alveg að verða fyrirmyndarhúsmóðir eða er það ekki?

Friday, August 6, 2010

Ný handavinnubúð

Ég fór í nýju handavinnubúðina "Amma mús prjónahús" í dag. Það var bara skemmtilegt. Þarna voru nokkrar nýjar garntegundir t.d. Rauma garnið sem ég hef vitað lengi af en ekki fengist hér. Mjög flott garn. Einnig er danskt garn sem heitir Duo til þar. Ótrúlega flott. Ég keypti mér Duo sem er blanda af ull og silki. Einnig Duo sem er hrein ull. Einnig keypti ég mér uppskrift til að prjóna eftir úr garninu og fannst mér hún heldur dýr.
Duo garnið er drjúgt eða 540 m í 100 gr. Litirnir eru þannig að mig langaði í fullt af garni. Lét samt nægja að kaupa tvo liti, rautt og grænt.

Ég er að lesa ótrúlega góða bók sem heitir The cathedral by the sea (Kirkja hafsins). Ég er á fleygiferð hvað tilfinningarnar varðar. Ég mæli algjörlega með henni.

Þátturinn sem ég má alls ekki missa af þessa dagana er "So you think you can dance." Þar eru svo flottir dansar og flottir dansarar. Dansarinn sem ég hélt með meiddist um daginn og ég er ekki enn búin að ákveða með hverjum ég held. Kanski þessum sem Mia þolir ekki !!!