Friday, May 14, 2010

Það sem er í gangi

er eins og venjulega allt of mikið. Það er svo erfitt að takmarka sig þegar svona margar freistingar eru í gangi.
Ég ákvað að setja inn mynd af garninu sem ég var að lita um daginn. Nú er ég búin að vinda það upp í hnykla og, án gríns, er það ekki minna girnilegt heldur en garn í garnbúð.

Í einum saumaklúbbnum mínum var sett í gang verkefni sem fólst í því að það átti að prjóna úr einni plötu af lopa og einni dokku af skrautgarni. Hér er mynd af því sem ég er að gera en ég ætla ekki að segja strax hvað þetta er. Kanski er það augljóst og ég ferlega hallærisleg að halda að það sjáist ekki. Verst hvað myndavélin er leiðiðnleg með að yfirlýsa myndir hjá mér. Garnsamsetningin sést ekki nógu vel hvað þá að liturinn njóti sín.

Í öðrum saumaklúbbi sem ég er í fór í gang umræða prjónamerki sem Guðný hafði búið til. Þau voru ferlega flott hjá henni og mér skilst að sambærileg merki séu seld dýrum dómi þar sem þau fást. Guðný sendi okkur hópnum lista yfir það sem þurfti til að búa til merkin og svo á að búa til merki í næsta saumaklúbbi. Ég get verið frekar óþolinmóð þegar eitthvað skemmtilegt er í boði svo ég bara keypti það sem mig vantaði og bjó til 4 prjónamerki. Stelpur, ef þið lesið þetta, þá á ég fullt af perlum svo það þarf ekki að kaupa þær.


Hér sjást litirnir aðeins betur.

Eins og venjulega er stafsetning og orðalag á ábyrgð Sólveigar systur.

Monday, May 3, 2010

Ótrúlega

flott síða sem Ólöf systir benti mér á. Þessi kona er algjör snillingur með nálina og ég varð dáldið montin því sys sagði að verkin hennar minntu hana á Blá útsaumsverkið mitt.

Slóðin er rebeccasower.typepad.com

Þetta er síða fyrir þá sem hafa áhuga á að sauma frjálst og föndra ótrúlega fallega hluti. Sólveig, þú gætir haft gaman af þessu eins og ég og Ólöf.

Síðan hennar er að vissu leiti ljóðræn og það er gaman að fletta í gegn um hana og skoða.

Sunday, May 2, 2010

Matarlitir

eru skemmtilegir og hægt að nota þá í annað en bara mat. Nýjasta nýtt hjá mér er að lita garn með matarlitum. Ég var í saumaklúbbi með skemmtilegum vinkonum og Hildur sagði okkur frá þessari snilld að nota matarliti í garnlitun.

Daginn eftir klúbb tíndi ég til slatta af óspennandi garni.


Allt gamalt sem ég hef ekkert gert með. Hvíta garnið var ekki eins hvítt og það lítur út fyrir að vera á myndinni.
Næst var farið í búðina og keyptur grænn og rauður matarlitur ásamt ediksýru.
Svo var byrjað. Ég ákvað að byrja með græna litinn því ég er svo veik fyrir öllu sem er grænt.

Þetta mallaði í pottinum í dáldin tíma og lá síðan þar til enginn litur var eftir í vatninu.

Og vola, svo fínt, grænt garn. Garnið er mislitt því ég setti það mishratt ofan í vatnið til að fá áferðina.
Nokkrum dögum seinna var sett í rauða litun. Þá litaði ég svakalega appelsínugult garn sem ég gat ekki notað í neitt. Útkoman var þessi heiti, rauði litur sem tónar út í appelsínugult.

Nú er bara að láta sér detta eitthvað í hug að búa til úr garninu.

Þetta er svo spennandi að ég hugsa að það endi með því að ég verði búin að lita fullt af gömlu garni og afgöngum. Nú er bara að fara og fá sér fleiri liti.
Ég þarf líka að finna mér liti sem lita bómull. Það skal tekið fram að matarlitirnir virka á ull og ullarblöndu en bómullarband sem ég batt hespurnar með tók ekki snefil af lit.

Saturday, April 10, 2010

Ullarhúfa fyrir herra

Erma- og sokkaprjónar nr. 3,5



Garn: Alpaca frá Sandnes (keypt í garnbúðinni Gauju í Mjódd og fæst einnig í Rúmfatalagernum), 1 dokka dökkgrár nr. 1088 og 1 dokka ljósgrár nr. 1042



Fitjið upp 120 lykkjur með ljósgráu á prjóna nr. 3,5. Prjónið stroff, 1 slétt lykkja, 1 brugðin lykkja. Prjónið þar til allt stroffið mælist 11 cm. Skiptið þá yfir í dökkgráan. Prjónið slétt.


Í fyrstu umferð á að auka út um 1 lykkju á 15 lykkja fresti 7 sinnum. Þá eru 127 lykkjur á prjóninum.


(ATH. Þeir sem vilja ekki fá húfuna belglaga sleppa þessari útaukningu og þá að sama skapi er sleppt þegar lykkjurnar eru felldar af.)


Prjónið þar til allt mælist 23 cm. Fellið þá af 7 lykkjur. (Þessari affellingu er sleppt ef ekki var aukið út um lykkjurnar) Prjónið áfram þar til allt mælist 25 cm. Þá er tekið úr fyrir kolli.



- Prjónið 5 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringin. 103 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 4 umferðir.


- Prjónið 4 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 86 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 3 umferðir.


- Prjónið 3 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 69 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 2 umferðir.


- Prjónið 2 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 52 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 2 umferðir.


- Prjónið 1 lykkju, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 35 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 2 umferðir.


- Prjónið 2 lykkjur saman allan hringinn.


Klippið á bandið og þræðið það í gegn um allar lykkjurnar sem eru eftir. Gangið frá öllum endum.




Ef einhver notar uppskriftina og verður var við villur í henni, látið mig endilega vita því ég er ekki búin að prjóna aðra húfu eftir að ég skáði uppskriftina á blað.

Sunday, March 7, 2010

Skemmtileg síða

Ég rakst á þessa síðu þegar ég var að skoða prjónauppskriftir og blogg. Ég ákvað að setja slóðina inn því þessi kona er greinilega virkur prjónari og tók meira að segja þátt í prjónaólympíuleikunum. Kíkið á ef þið hafið áhuga.

Knitting Patterns Knitspot - Anne Hanson Knitting Pattern Designer Blog and Knitting Patterns Shop

Monday, February 22, 2010

Öðruvísi lopapeysa

Stærð: M

Garn: Plötulopi (2 plötur), skrautgarn 1 fyrir prjóna nr. 2,5 – 3 (4 - 5 dokkur), skrautgarn 2 með móhair fyrir prjóna nr. 5 (3 dokkur).

Prjónar nr. 5

8 tölur

Prjónfesta: 10 x 10 cm eru 17 lykkjur og 24 umferðir á þveginni prufu.

Bolur:
Bolurinn er prjónaður í einu stykki, fram og til baka. (Ef hann er prjónaður heill þarf að bæta við 2 – 4 lykkjum til að klippa stykkið í sundur.)

Fitjið upp 148 lykkjur með skrautgarni 2 á prjóna nr. 5.

Prjónið stroff á eftirfarandi hátt: *Ein umferð slétt, tvær umferðir 1 lykkja slétt og 1 lykkja brugðin*. Prjónið þessa 3 prjóna þar til allt stykkið mælist 5 cm.

Eftir það er prjónað slétt prjón með einföldum plötulopa og skrautgarni 1. Prjónið þar til allt stykkið mælist 24 cm.

Nú er tekið úr fyrir mitti: Fellið af 4 lykkjur jafn dreift yfir stykkið þ.e. 1 lykkja á fyrra framstykki, 2 lykkjur á bakstykki og 1 lykkja á seinna framstykki. Prjónið 3 umferðir. Fellið aftur af 4 lykkjur jafn dreift yfir stykkið. Núna eru 140 lykkjur á prjóninum.

Prjónið nú þar til allt stykkið mælist 31 cm. Þá er aukið um 4 lykkjur jafnt dreift yfir stykkið. Nú eru 144 lykkjur á prjóninum.

Prjónið nú þar til allt stykkið mælist 41 cm. Þá eru prjónaðar 31 lykkja, 8 lykkjur eru settar á band og geymdar, prjónið 66 lykkjur, 8 lykkjur eru settar á band og geymdar, prjónið 31 lykkju.

Nú er þetta stykki geymt.

Ermar:
Fitjið upp 41lykkju með skrautgarni 2 á prjóna nr. 5. Tengið í hring og prjónið stroff eins og á bol þar til ermin mælist 5 cm. Skiptið þá yfir í lopa og skrautgarn 1 og prjónið slétt prjón þar til allt mælist 14 cm. Aukið þá út um 2 lykkjur undir ermi á 10 cm fresti þar til 54 lykkjur eru komnar á prjóninn. Prjónið þar til ermin mælist 50 cm. Setjið þá 8 lykkjur af undirerminni á hjálparprjón eða band og geymið ermina.

Prjónið hina ermina eins.

Berustykki:
Tengið saman bol og ermar á eftirfarandi hátt: Prjónið 31 lykkju af bol, prjónið ermi við, prjónið bakstykkið, prjónið ermi við, prjónið 31 lykkju. Nú er búið að tengja saman þá hluti sem mynda berustykkið.
Prjónið þá á eftirfarandi hátt:
Prjónið 14 umferðir. Prjónið þá saman 7. og 8. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 4 umferðir. Prjónið saman 6. og 7. lykkjurnar allan hringinn.
Pjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 5. og 6. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 4. og 5. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 6 umferðir. Prjónið þá saman 3. og 4. lykkjurnar allan hringinn.
Prjónið 4 umferðir. Í næstu umferð eru felldar af 7 lykkjur jafn dreift yfir umferðina.

Nú eru alls 80 lykkjur á prjóninum. Klippið garnið frá og skiptið yfir í skrautgarn 2
Prjónið hálsmál.

Hálsmál:
Prjónið með skrautgarni 2 yfir lykkjurnar 80 eins stroff og er á bolnum. Prjónið 6 cm. Fellið af.

Vinstri kantur:
Prjónið upp 114 lykkjur með lopa og skrautgarni 1 á prjóna nr. 5 meðfram allri hliðinni, hálsmál meðtalið. Prjónið stroff eins og á bol. Prjónið 6 umferðir. Prjónið síðan 1 umferð með skrautgarni og fellið af.

Hægri kantur:
Er prjónaður eins og vinstri kantur nema að í þriðju umferð er fellt af fyrir hnappagötum þannig: Prjónið 9 lykkjur, slá bandinu yfir prjóninn og prjónið 2 lykkjur saman. *Prjónið 12 lykkjur, sláið þá bandinu yfir prjóninn og prjónið 2 lykkjur saman*. Endurtakið frá * til * þar til 8 hnappagöt hafa myndast.

Frágangur:
Lykkið saman undir höndunum, gangið frá endum og saumið tölur á peysuna.

Thursday, February 18, 2010

Teppið

Ég gleymdi að setja inn mynd af teppinu hennar mömmu eins og það lítur út (allar myndirnar saman). Gullfallegt og hangir upp á vegg hjá HB.


Tuesday, February 16, 2010

Bútasaumur

Ég ákvað að setja inn myndir af bútasaumsteppi sem mamma mín gaf heimasætunni í afmælisgjöf. Þetta er með fallegri teppum sem ég hef séð og hún er núna búin að búa til eitt teppi handa öllum þremur heimasætum fjölskyldunnar.
Það sést ekki nógu vel á myndunum að hún er búin að sauma út í þær til að gera þær flottari.
Fyrst er það skautastelpan því HB er að æfa skauta.

Svo er það blómastelpa og mér finnst það skemmtileg tilviljun (eða ekki) því á tímabili vildi HB láta kalla sig "Blóma" því það var svo flott nafn. (Hún var líklega um 4 - 5 ára þá)

Svo er það hauststelpan

og að lokum sumarstelpan.

Gó mamma, halda svona áfram því þetta er svo flott hjá þér.

Wednesday, January 20, 2010

Prjóni prjóni prjóni .....

er eitthvað skemmtilegra en það. Jú, örugglega eitthvað sem er allavega jafn skemmtilegt en ekki margt sem er skemmtilegra. Samt kanski eitthvað .... hmmmmm. Látum staðar numið.

Ég veit að systrum mínum sem eru ekki eins hrifnar af því að prjóna og ég geta eflaust talið upp fullt af einhverju sem þeim finnst skemmtilegra að gera en að prjóna.

Nú er ég nýlega búin að klára 2 verkefni. Annað er sjalið sem ég setti inn eftirfarandi myndir af. Hitt er kragi sem ég set inn seinna.
Sjalið er prjónað úr einföldum plötulopa og einbandi. Ég notaði uppskrift úr gömlu prjónablaðinu Ýr. Það væri í rauninni ágætt að minnka lykkjufjöldan aðeins því þessi samsetning virðist vera aðeins grófari en uppskriftin miðast við.

Eins og sést er ekki um hefðbunið sjal að ræða heldur þetta sem sést hér. Lögunin er frekar skemmtileg og það liggur ótrúlega vel yfir axlir og bak og fer ekki í krumpu og þykkildi þegar búið er að binda það sama.


Munstirð var einfalt hálfklukkuprjón. Þegar búið var að prjóna axlar- og bakhlutann voru teknar upp lykkjur og framhlutinn prjónaður.

Ég ákvað að vera djörf og birta myndir af frúnni íklæddri sjalinu. Fyrst bakhlutinn.....

og síðan framhlutinn.

Ég stóðst ekki mátið að setja líka inn myndir af peysunni sem 5 ára frænkan fékk í jólagjöf. Þetta er hefðbunin norsk peysa með áttblaðarósarmynstri. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég geri bleika, norska peysu og mér til mikillar gleði gekk það alveg upp. Reyndar munar miklu að ég skyldi ákveða að nota svartan lit með. Við það datt þetta væmna út sem annars hefði getað orðið.
Svona leit berustykkið út.....

og svona var neðan á peysunni og framan á ermunum....

og svona leit peysan út.

Það var ferlega gaman að prjóna hana og ég er ánægð með afraksturinn og enn ánægðari með knúsið sem ég fékk fyrir hana.

Wednesday, January 13, 2010

Candy stripe húfa

Ég ákvað að setja inn myndir af litríkustu húfunni sem ég hef gert í langan tíma. Ég byrjaði á því að kalla hana candyflos húfuna því mér fannst hún eins og candyflos en þegar jólatíminn kom fannst einhverjum (sem ég man ómöglega hver var) húfan vera eins og candystripe brjóstsykur og mér fannst það bara alveg rétt.

Húfan er prjónuð þannig að kollurinn er prjónaður fyrst og er í annarri hverri umferð aukið um 1 lykku í öðrum endanum og 2 lykkjur prjónaðar saman í hinum endanum. Þegar óskaðri lengd utan um höfuðið er náð er fellt af og saumað saman í hliðinni.



Að því loknu eru prjónaðar upp lykkjur og stroff prjónað í óskaða lengd.

Síðast er bandi þrætt í gegn um kollinn og rykkt saman. Gengið frá endum.


Einfalt, ekki satt.

Hér er síðan heimasætan með húfuna á sér en hún var tilbúin til að vera módel fyrir mig enda myndast hún miklu betur en ég nokkurn tíman.