Sunday, September 12, 2010

Rauðu hanskarnir

eru búnir fyrir nokkru síðan. Það tók sinn tíma að skola úr þeim og leggja þá til og að því loknu að taka mynd af þeim.
Útkoman er þessi


Þeir eru fagurrauðir með gylltum þræði í, prjónaðir úr sisu garni. Garnið er fallegt þannig að útkoman verður fín.

HB á þá og bara ánægð með þá. Ég hélt fyrst að þeir gætu orðið of jólalegir en það er ekki. Um leið og það fer að kólna getur hún notað þá.

Ég get nú ekki sagt að hanskar sé það skemmtilegasta sem ég prjóna. Ónei, þeir eru seinlegir og mér fannst ég alltaf vera að gera það sama þegar ég prjónaði fingur eftir fingur. (Ótrúlegt tillitsleysi við prjónafólk að maðurinn skuli vera með 10 fingur). En þar sem útkoman var góð á ég kanski eftir að nenna að prjóna annað hanskapar. Ég lofa samt engu....

Thursday, September 9, 2010

Þegar kóngur kom

er alveg ótrúlega skemmtileg bók. Ég kláraði hana fyrir stuttu síðan og hafði verulega gaman af því að lesa hana. Er enn að hugsa um hvort hún sé sannsöguleg eða ekki svo vel er hún skrifuð.
Meðan ég var að lesa hana fórum við Gunni á Árbæjarsafn. (Hann var búin að lesa bókina) Megnið af tímanum þar fór í að skoða húsin og athuga hvenær þau voru byggð. Ef þau voru frá þeim tima sem sagan gerist fórum við inn og skoðuðum húsið. Ég held að það hafi sjaldan verið jafn gaman að heimsækja safnið. Ekki skaðaði að þar var einnig markaður og keypti ég þá bestu chillisultu sem ég hef smakkað (líklegast sú eina sem ég hef smakkað ;-)Ég væri alveg til í að prófa að búa til svona sultu svo ef einhver á uppskrift sem ég má fá eða getur bent mér á síðu með góðri uppskrift þá væri það vel þegið.
Annars er ég búin að búa til rifsberjahlaup og sólberjahlaup með Ólöfu systur. Rifberjahlaupið er mjög gott en ég enn að bíða eftir að sólberjahlaupið verði þykkt svo hægt sé að borða það. Með þessu er ég alveg að verða fyrirmyndarhúsmóðir eða er það ekki?

Friday, August 6, 2010

Ný handavinnubúð

Ég fór í nýju handavinnubúðina "Amma mús prjónahús" í dag. Það var bara skemmtilegt. Þarna voru nokkrar nýjar garntegundir t.d. Rauma garnið sem ég hef vitað lengi af en ekki fengist hér. Mjög flott garn. Einnig er danskt garn sem heitir Duo til þar. Ótrúlega flott. Ég keypti mér Duo sem er blanda af ull og silki. Einnig Duo sem er hrein ull. Einnig keypti ég mér uppskrift til að prjóna eftir úr garninu og fannst mér hún heldur dýr.
Duo garnið er drjúgt eða 540 m í 100 gr. Litirnir eru þannig að mig langaði í fullt af garni. Lét samt nægja að kaupa tvo liti, rautt og grænt.

Ég er að lesa ótrúlega góða bók sem heitir The cathedral by the sea (Kirkja hafsins). Ég er á fleygiferð hvað tilfinningarnar varðar. Ég mæli algjörlega með henni.

Þátturinn sem ég má alls ekki missa af þessa dagana er "So you think you can dance." Þar eru svo flottir dansar og flottir dansarar. Dansarinn sem ég hélt með meiddist um daginn og ég er ekki enn búin að ákveða með hverjum ég held. Kanski þessum sem Mia þolir ekki !!!

Wednesday, July 21, 2010

Peysa og súpa

Það er nú meira hvað veðrið er búið að vera gott. Samt er nú handavinnan búin að vera í gangi.
Ég kláraði peysu sem ég gaf Katrínu í þriggja ára afmælisgjöf. Peysan var algjör skyndiákvörðun en hafðist fyrir afmælið.


Uppskriftina fékk ég í Ungbarnablaðinu, nýjasta held ég. Peysan er fjólublá framan á forsíðunni en ég ákvað að hafa hana glaðlegri en það.

Svo fann ég þessar fallegu fiðrildatölur í Storkinum. Það er nú meira hvað það er mikið úrval af fallegum tölum þar, ekki það að ég sé að auglýsa fyrir Storkinn. Það var bara úr svo miklu að velja og að því að ég held á skikkanlegu verði.

Það er mjög langt síðan ég hef prjónað kaðlamunstur. Ég var nokkuð fljót að ná tökum að því og náði bara að prjóna munstrið nokkur hratt þegar ég notaði ekki hjálparprjón.

Ég ákvað að láta fylgja með uppskrift að súpu sem ég gerði í sumar og var alveg afbragðsgóð. Uppskriftina fann ég á ms.is og er hún svona:

Rjómasveppasúpa með hráskinku og rifnum villisveppaosti - fyrir 6

100 g smjör

100 g hveiti

5 dl vatn

5 dl nýmjólk

2 stk súputeningar

2 stk sveppateningar

250 g sveppir

1 mtsk smjör

5 dl rjómi

5 sneiðar hráskinka (1 pakki )

Bræðið smjörið og bætið hveitinu í, hrærið vel saman. Setjið saman við mjólk og vatn, sjóðið við vægan hita í nokkrar mínútur. Bætið í súputeningum og sveppateningum. Saxið sveppina og steikið í smjöri, kryddið með salti og pipar. Hellið rjómanum yfir sveppina og látið sjóða upp. Bætið svepparjómanum í súpugrunnin. Skerið hráskinkuna í bita og setjið alveg í lokin út í súpuna ásamt ostinum. Berið fram.

Monday, June 28, 2010

Ég elska

að prjóna úr þessu garni sem heitir Fame trend og er frá Marks & kattens. Litirnir eru alveg ótrúlega flottir og hvernig þeir tvinnast saman.

Ég ákvað að prjóna mér sokka úr hnotu sem ég keypti mér einhvern tíman í vetur. Þar sem ég er svo hrifin af því að byrja á tánni ákvað ég að nota þá tækni.

Þar sem mér finnst líka svo gaman að finna upp hlutina sjálf ákvað ég að hanna mér sokka sem byrja á tánni. Eftir að hafa byrjað að minnsta kosti þrisvar sinnum (of vítt, of breið tá, of þröng tá) var ég með þetta á prjónunum og fótunum.

Mér fannst þetta líta alveg ljómandi vel út og var meira að segja með svo mikla hönnun á sokkunum að ég setti gataprjón sem munstur í þá.

Eftir því sem sokkurinn stækkar er ég ánægðari. Víddin er alveg eins og ég vil hafa hana, litirnir flottir svo ekki get ég kvartað.

Svona líta þeir út núna. Hællinn er ótrúlega auðveldur. Hefðbundi hællinn er auðveldur ef maður kann hann en ef ég væri að byrja að prjóna sokka mundi ég vilja læra þennan hæl því hann er mörgu sinnum auðveldar en sá hefbundni.
Þar sem mér er lífsins ómöglegt að vera bara með eitt stykki í gangi í einu ákvað ég að byrja á litríkri stelpupeysu. Sjáum hvað verður úr henni og hver fær.

Þar sem myndirnar af fína vestinu sem ég hannaði og prjónaði voru svo glataðar ákvað ég að setja inn nýjar myndir af því.

Neðst var breiður klukkuprjónsbekkur. Mér fannst skemmtilegt að breyta frá því að hafa stroff.

Svona lítur það út að aftan og

svona lítur það út að framan. Garnið er silkimjúk blanda af merino ull og silki. Getur varla stungið nokkurn mann. Einnig var það drjúgt því ég notaði bara þrjár hespur í vestið.
Svo er ég alltaf að lesa. Ég ákvað samt að hætta að setja inn allar bækurnar sem ég les en ætla að setja inn bækur sem eru það góðar að ég verð að láta vita að ég hafi lesið þær. Ég er samt bara að ná að lesa tvær bækur í júni en náði að lesa fjórar bækur í maí (reyndar hraðlas ég tvær þeirra).
Í gær hélt ég upp á afmælið mitt og gleymdi náttúrulega að taka myndir. Ég bauð upp á tvenns konar súpur og var önnur Mexico súpa með nacho og öllu tilheyrandi, hin var kölluð Argentínusúpa þar sem Argentína var hitt liðið sem var að keppa í fótbolta þetta kvöld. Hún var reyndar rjómalöguð sveppasúpa með hráskinku út í. Ferlega góð og uppskriftin er á ms.is. Síðan var boðið upp á kökur á eftir. Mér fannst mjög skemmtilegt að fá næstum alla til mín, vantaði hluta af noregsliðinu og karlmennina í Mosarima. Þetta er eitt af því sem mér finnst gefa lífinu gildi, að hitta fólkið sitt og eiga góðar stundir með því.

Wednesday, June 9, 2010

Fullt búið

af prjónadóti. Nú er orðið svo langt síðan ég setti eitthvað inn að ég er búin að klára nokkur stykki síðan. Fyrst má nefna norska peysu sem ég gerði á HB. Hún valdi munstur og liti sjálf.

Mér finnst peysan ferlega falleg og vel valin hjá henni. Svo var líka mjög gaman að prjóna hana enda var ég ekki nema rúman mánuð með hana.

Ég bjó til nokkrar prjónanælur. Þegar maður er orðin svona mikil prjónakona er ekki lengur hægt að nota garn til að merkja fyrir útaukningum eða öðru. Guðný sem er með mér í handavinnusaumaklúbbi kenndi mér að búa til svona nælur. Það er verst hvað myndin er léleg en myndavélin yfirlýsir svo mikið að litirnir sjást ekki almennilega. Svo var ég að reyna að dekkja myndina í tölvunni og það fór ekkert sérstaklega vel.


Karen er búin að fá húfu við peysuna sína. Kötturinn er sá forvitnasti sem ég veit um og má ekki missa af neinu. Hann stakk sér inn í mynd um leið og ég smellti af.

Þetta er klassískt húfusnið og ég er að hugsa um að setja það inn á vefinn. Það sem mér finnst svo gott við það er að það lokar vel á eyrun. Svo er bara að stilla lykkjufjöldann af þannig að munstrið passi við. Ég notaði sama munstur og er neðst á peysunni sem húfan er við og það kom bara vel út.


Þetta er ekki búið. Eitt stykki klassískt sjal er líka tilbúið. Maður verður að hafa eitthvað að prjóna við sjónvarpið og hvað er betra en sjal?

Ég bara spyr?


Jú, það er líka ferlega fínt að prjóna lopapeysu fyrir framan sjónvarpið. Kanski ekki akkúrat munsturbekkinn en allt þetta einlita er fínt að prjóna fyrir framan TV svo það verði ekki leiðinlegt.

Gunni fékk þessa fínu peysu svo nú er hann kominn í eina sem er ekki trosnuð framan á ermunum, neðan á kanntinum og í hálsmálinu.

En þetta er ekki búið því ég gerði líka vesti sem ég hannaði alveg sjálf, gerði prufu og reiknaði út.
Það var náttúrulega líka gaman. Garnið er ótrúlega flott enda blanda af merinoull og silki. Svo er það sjálfmunstandi svo ég þurfti bara að prjóna án þess að hugsa.

Þá er upptalið það sem ég er búin að vera að gera undanfarið. En ......

það er ekki hægt að vera aðgerðarlaus svo ég byrjaði í gær á sokkum sem ég byrja á tánni. Ég er að prófa að gera þá án þess að nota munstur. Það verður spennandi að sjá hvernig fer...

Friday, May 14, 2010

Það sem er í gangi

er eins og venjulega allt of mikið. Það er svo erfitt að takmarka sig þegar svona margar freistingar eru í gangi.
Ég ákvað að setja inn mynd af garninu sem ég var að lita um daginn. Nú er ég búin að vinda það upp í hnykla og, án gríns, er það ekki minna girnilegt heldur en garn í garnbúð.

Í einum saumaklúbbnum mínum var sett í gang verkefni sem fólst í því að það átti að prjóna úr einni plötu af lopa og einni dokku af skrautgarni. Hér er mynd af því sem ég er að gera en ég ætla ekki að segja strax hvað þetta er. Kanski er það augljóst og ég ferlega hallærisleg að halda að það sjáist ekki. Verst hvað myndavélin er leiðiðnleg með að yfirlýsa myndir hjá mér. Garnsamsetningin sést ekki nógu vel hvað þá að liturinn njóti sín.

Í öðrum saumaklúbbi sem ég er í fór í gang umræða prjónamerki sem Guðný hafði búið til. Þau voru ferlega flott hjá henni og mér skilst að sambærileg merki séu seld dýrum dómi þar sem þau fást. Guðný sendi okkur hópnum lista yfir það sem þurfti til að búa til merkin og svo á að búa til merki í næsta saumaklúbbi. Ég get verið frekar óþolinmóð þegar eitthvað skemmtilegt er í boði svo ég bara keypti það sem mig vantaði og bjó til 4 prjónamerki. Stelpur, ef þið lesið þetta, þá á ég fullt af perlum svo það þarf ekki að kaupa þær.


Hér sjást litirnir aðeins betur.

Eins og venjulega er stafsetning og orðalag á ábyrgð Sólveigar systur.

Monday, May 3, 2010

Ótrúlega

flott síða sem Ólöf systir benti mér á. Þessi kona er algjör snillingur með nálina og ég varð dáldið montin því sys sagði að verkin hennar minntu hana á Blá útsaumsverkið mitt.

Slóðin er rebeccasower.typepad.com

Þetta er síða fyrir þá sem hafa áhuga á að sauma frjálst og föndra ótrúlega fallega hluti. Sólveig, þú gætir haft gaman af þessu eins og ég og Ólöf.

Síðan hennar er að vissu leiti ljóðræn og það er gaman að fletta í gegn um hana og skoða.

Sunday, May 2, 2010

Matarlitir

eru skemmtilegir og hægt að nota þá í annað en bara mat. Nýjasta nýtt hjá mér er að lita garn með matarlitum. Ég var í saumaklúbbi með skemmtilegum vinkonum og Hildur sagði okkur frá þessari snilld að nota matarliti í garnlitun.

Daginn eftir klúbb tíndi ég til slatta af óspennandi garni.


Allt gamalt sem ég hef ekkert gert með. Hvíta garnið var ekki eins hvítt og það lítur út fyrir að vera á myndinni.
Næst var farið í búðina og keyptur grænn og rauður matarlitur ásamt ediksýru.
Svo var byrjað. Ég ákvað að byrja með græna litinn því ég er svo veik fyrir öllu sem er grænt.

Þetta mallaði í pottinum í dáldin tíma og lá síðan þar til enginn litur var eftir í vatninu.

Og vola, svo fínt, grænt garn. Garnið er mislitt því ég setti það mishratt ofan í vatnið til að fá áferðina.
Nokkrum dögum seinna var sett í rauða litun. Þá litaði ég svakalega appelsínugult garn sem ég gat ekki notað í neitt. Útkoman var þessi heiti, rauði litur sem tónar út í appelsínugult.

Nú er bara að láta sér detta eitthvað í hug að búa til úr garninu.

Þetta er svo spennandi að ég hugsa að það endi með því að ég verði búin að lita fullt af gömlu garni og afgöngum. Nú er bara að fara og fá sér fleiri liti.
Ég þarf líka að finna mér liti sem lita bómull. Það skal tekið fram að matarlitirnir virka á ull og ullarblöndu en bómullarband sem ég batt hespurnar með tók ekki snefil af lit.

Saturday, April 10, 2010

Ullarhúfa fyrir herra

Erma- og sokkaprjónar nr. 3,5



Garn: Alpaca frá Sandnes (keypt í garnbúðinni Gauju í Mjódd og fæst einnig í Rúmfatalagernum), 1 dokka dökkgrár nr. 1088 og 1 dokka ljósgrár nr. 1042



Fitjið upp 120 lykkjur með ljósgráu á prjóna nr. 3,5. Prjónið stroff, 1 slétt lykkja, 1 brugðin lykkja. Prjónið þar til allt stroffið mælist 11 cm. Skiptið þá yfir í dökkgráan. Prjónið slétt.


Í fyrstu umferð á að auka út um 1 lykkju á 15 lykkja fresti 7 sinnum. Þá eru 127 lykkjur á prjóninum.


(ATH. Þeir sem vilja ekki fá húfuna belglaga sleppa þessari útaukningu og þá að sama skapi er sleppt þegar lykkjurnar eru felldar af.)


Prjónið þar til allt mælist 23 cm. Fellið þá af 7 lykkjur. (Þessari affellingu er sleppt ef ekki var aukið út um lykkjurnar) Prjónið áfram þar til allt mælist 25 cm. Þá er tekið úr fyrir kolli.



- Prjónið 5 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringin. 103 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 4 umferðir.


- Prjónið 4 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 86 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 3 umferðir.


- Prjónið 3 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 69 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 2 umferðir.


- Prjónið 2 lykkjur, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 52 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 2 umferðir.


- Prjónið 1 lykkju, prjónið 2 lykkjur saman. Úrtakan er endurtekin allan hringinn. 35 lykkjur á prjóni.


- Prjónið 2 umferðir.


- Prjónið 2 lykkjur saman allan hringinn.


Klippið á bandið og þræðið það í gegn um allar lykkjurnar sem eru eftir. Gangið frá öllum endum.




Ef einhver notar uppskriftina og verður var við villur í henni, látið mig endilega vita því ég er ekki búin að prjóna aðra húfu eftir að ég skáði uppskriftina á blað.