Wednesday, February 2, 2011

Bókalestur

Mér finnst alltaf gaman að lesa og í rauninni nauðsynlegt að lesa upp í rúm áður en ég fer að sofa svo ég fái góðan svefn.
Fyrir stuttu kláraði ég bókina Vitavörðuninn eftir Camillu Lackberg. Helsti galli bókarinnar var sá að hún rændi mig svefninum svo spennandi og skemmtileg var hún.

Ég mæli eindregið með þessari bók: Hún er ekki bara spennu og fjölskyldusaga heldur skilur hún eftir sig umhugsun um heimilisofbeldi og hve konur, börn og vel meinandi fólk stendur varnarlaust gagnvart þeim fólum sem fá einhverja fróun í því að berja konur sínar og börn.



Rétt fyrir áramót kláraði ég Kirkju hafsins eftir Ildefonso Falcones. Mér fannst þessi bók góð en frekar þung aflestrar. Ég var farin að kvíða fyrir því í hvaða ógöngum aðalsöguhetjan lenti næst og það var orðið þannig að þegar góðu tímabilin voru orðin nokkuð löng varð ég að leggja frá mér bókina því erfiðleikarnir voru framundan. Ég las bókina því að ca 4 mánuðum. Og nokkrar bækur með henni. Kirkja hafsins er samt þannig að það var ekki hægt að hætta að lesa hana. Ég varð að klára hana. Mannlífslýsingarnar á Spáni og Barcelona á þessum tímum voru ótrúlegar. Mannfyrirlitningin og virðingarleysi aðalsins fyrir almúganum þannig að maður þakkar fyrir að búa við lýðræði en ekki annað stjórnform.

Saturday, January 22, 2011

Jóla ennþá???

Ég prjónaði peysu handa ömmu í jólagjöf. Peysan var frá okkur stórfjölskyldunni, þ.e. mömmu, pabba, okkur systrunum 4, mönnunum okkar og börnum. Ég byrjaði tímanlega á peysunni og allt það en einhvern veginn vill það enda þannig að allt verður á síðustu stundu. Ég kláraði peysuna, skolaði úr henni og lagði til. Saumaði síðan á hana tölur og tók myndir. Það var ekki fyrr en ég skoðaði myndirnar að ég tók eftir vitleysunni sem ég gerði.

Sástu hana? Mikil ósköp, peysan var búin að liggja fyrir framan mig og ég búin að taka myndir og sá ekki að þegar ég saumaði tölurnar á hana skekkti ég munstrið. Sem betur fer var ég ekki búin að afhenda hana en ég hafði bara ca. hálftíma til að laga þetta (á Þorláksmessu) því við vorum að fara að hittast hjá ömmu og gefa henni peysuna.

En ég náði það laga hana og þá leit hún svona út. Allt annað. Munstrið stenst á og allt í himna lagi.

Það var mjög gaman að prjóna peysuna og dáldið langt síðan ég hef fengið svona áskorun eins og þetta munstur var. En uppskriftin var vel skrifuð (á norsku) og ekkert mál að fylgja henni. Útgefendur íslenskra prjónablaða mættu taka þetta sér til fyrirmyndar því stundum eru uppskriftirnar svo illa skrifaðar að það mætti ætla að þær hafi ekki verið prufuprjónaðar.

Amma var mjög ánægð með peysuna svo tilgangnum var náð og ég fór ánægð heim frá henni að klára það sem var eftir að gera fyrir jól eins og að klára að prjóna hauskúpuhúfuna hans Darra.
Eins og alltaf eru allar stafsetningavillur á ábyrgð Sólveigar systur. ;-)

Saturday, January 15, 2011

Fleiri jólagjafir

Ég prjónaði þessa húfu handa mági mínum og gaf í jólagjöf. Hún er úr alpakaull og svo ótrúlega mjúk. Alpakaullin er bæði mýkri og loftkenndari en kindaullin að mínu mati.


Svo kemur örlítil angóruáferð á hana.

Myndavélin hjá mér er greinilega ekki nógu góð því litirnir í húfunni voru brúnir. Ég valdi dökkbrúnan og millibrúnam lit sem tónuðu fallega saman. Á myndinni virðast litirnir fara út í fjólulitaðan tón. Hmm ekki nógu gott. Ólöf, ef þú lest þetta máttu taka mynd af þessari húfu fyrir mig......

og nú kemur í ljós hvort þú nennir að lesa bloggið mitt. Hehe.

Ég fann þessa fínu mynd af dýrinu sem framleiðir alpacaull. Dýrið er kallað alpaca á ensku og kemur frá suður Ameríku. Ætli það sé líka kallað alpaka á íslensku?

Friday, January 7, 2011

Jólagjafapakki 3

Þá er komið að jólagjöf númer þrjú. Ég prjónaði dúkkukjól handa 6 ára frænku minni.



Fyrir einhverju síðan bað hún mig um að prjóna sparikjól handa dúkkunni og ég ákvað að búa þennan til.



Hann er með gataprjóni neðan á og á ermunum. Enn og aftur klikkaði ég á því að það virðist ekki vera hægt að snúa mynd og setja hana inn í bloggið. Því er hún á hlið. Það hlýtur að vera komið að því að ég muni þetta og taki ekki myndir á hlið :-)


Loksins er komin helgi. Þetta er búin að vera ein lengsta vika vetrarins. Það er ótrúlega erfitt að byrja að vinna eftir gott frí, sérstaklega þegar sólarhringnum er hliðrað fram á nótt og til hádegis. Ég ætla að reyna að safna kröftum um helgina og reyna að hressa mig eftir leti- og átlífið í jólafríinu.

Thursday, December 30, 2010

Jólagjafapakki 2

Þá er það næsti skammtur af jólagjöfum.
Ég gaf frænda mínu í Noregi útprjónað húfu og vettlingasett. Fannst tilvalið að hann ætti eitt norskt sett. Ég ákvað samt að hafa það ekta stráka og prjónaði hauskúpumynstur á það.
Svona litu vettlingarnir út

og aðeins nær


Hauskúpurnar voru ekkert mjög frýnilegar. Mér fannst hönnunin samt ótrúlega flott og hauskúpan koma vel út.

Það var líka ferlega gaman að prjóna þetta munstur enda ég ekki vön að prjóna hauskúpur og því um líkt. Þegar ég prjóna norskt munstur prjóna ég oftast áttblaðarósina eða eittvað í þeim dúr.
Svo var það húfan. Sama munstur en sett í húfu. Húfan kom líka mjög flott út. Bestu meðmælin voru þau að frændur mínir 2 sem fengu svona húfur voru farnir að nota þær. Það eru meðmæli með munstrinu.


Uppskriftina að þessu setti fékk ég á Ravelry síðunni. Hún er brunnur af uppskriftum, sérstaklega fylgihlutum.


Ég á eftir að setja inn mynd af húfunni sem Dfrændi fékk en ég hafði hana aðeins öðruvísi að neðan svo strákarnir gætu þekkt húfurnar sínar í sundur. Þfrændi fékk líka vettlinga og voru þeir brúnir og hvítir svo bræðurnir gætu þekkt þá í sundur. Ég gleymdi að taka mynd af þeim í flýtinum fyrir jól svo Ssys ef þú lest þetta þá máttu endilega taka mynd af vettlingunum og senda mér. Ekki væri heldur verra að fá mynd af strákunum í jólafjöfunum.

Sunday, December 26, 2010

Jólagjöf 1

Ein jólagjöfin sem ég bjó til í ár var vélsaumuð. Ég ákvað að sauma kjól handa Katrínu litlu frænku minni.


Málið er að ég saumaði brúðarkjól á Sólveigu systur fyrir nokkrum árum síðan. Efnið kláraðist ekki alveg heldur átti ég eftir sirka metersbút af því ásamt ræmum sem sniðust af þegar kjóllinn var sniðinn. Ég vissi aldrei hvað ég átti að gera við efnið og geymdi það með það í huga að það hlyti að koma að því að eitthvað yrði hægt að gera úr því.

Nú í desember fékk ég þá brilliant hugmynd að sauma kjól á dóttur systur minnar úr brúðarkjólaefninu. Efnið er þykkt og vandað satínsilki og bætti ég við bleikum skrautborða til að það yrði léttara yfir kjólnum.

Kjóllinn er mjög sparilegur svo nú er bara að vona að hann sé ekki of hvítur og fínn fyrir þá litlu að vera í honum. Sólveig, þú verður endilega að láta hana í hann og það verður að hafa það þó það komi blettir í hann. Vonandi er bara hægt að þv0 þá úr.

Kjóllinn er gerður fyrir 5 ára svo hún fer ekki að nota hann alveg strax enda bara 3 og 1/2. Þegar sú stutta passar í kjólinn verða ermarnar ca á miðjum framhandlegg. Það þýðir að hún getur byrjað að nota hann fyrr.
Ég held að ég þurfi eiginlega að verða mér út um mynd af Ssys í brúðarkjólnum til að sýna hann.

Thursday, December 16, 2010

Jólin koma

og verða komin áður en ég veit af. Þar sem öll handavinnan sem ég geri núna eru jólagjafir ákvað ég að sýna jólaskraut sem ég hef búið til.
Fyrir nokkrum árum bjó ég þessa engla til. Þeir eru alltaf jafn hátíðlegir og fallegir í einfaldleika sínum.
Jólasokkinn saumaði ég handa syninum. Það er ótrúlega gaman að sauma Bucilla hlutina og um leið svo einfalt. Þegar ég er að prjóna eða sauma eitthvað erfitt er gott að hafa annað einfalt með. (Hjá mér er það svona 2 - 3 erfið stykki og 4 - 5 létt stykki í gangi í einu).
Sokkurinn er einfaldur og fallegur og fær að hanga í stofunni þar sem ég neita syninum um að hafa hann í herberinu meðan það lítur út eins og útibú frá heimsins mesta sóða (ég reyni alla vega að trúa þvi að hann sé ekki mesti sóðinn).

Ég þarf að sýna mynd af mesta stoltinu mínu í jólaskrauti. Það var sko vinna í því. Kemur næst.

Thursday, December 9, 2010

Bókin

Sokkar og fleira eftir Krístínu Harðardóttir er ansi góð að mínu mati. Bókin er 72 blaðsíður og er hún ríkulega myndskreytt.

Fremst í bókinni er gott efnisyfirlit þannig að auðvelt er að finna það sem leitað er að.

Kristín skiptir bókinni upp í nokkra kafla eftir því hvernig sokkauppskriftir hún setur fram. Í upphafi hvers kafla er stutt umföllun sem er nokkuð skemmtilegt að lesa.

Það er tvennt annað sem mér finnst gera þessa bók eins góða og hún er. Það fyrra er að hún er með allt frá mjög einfaldum uppskriftir fyrir byrjendur yfir í að vera með uppskriftir fyrir prjónabrjálæðinga eins og mig sem vill ekkert of einfalt í prjónaskap. Hitt sem ég er svo hrifin af er að hún er með uppskriftir af nokkrum hælum. Ég kann að prjóna tvær gerðir af hæl, nú get ég hlakkað til að prjóna nýjar hælatýpur.

Ég held að enginn verði svikinn af því að kaupa sér bókina. Mér finnst þetta skemmtilegasta prjónabókin á markaðinum í dag. Hún gefur líka prjónurum sem eru lengra komnir verkefni til að vinna að. Mér finnst vera galli á flestum prjónabókunum sem eru gefnar út hér á landi að þær eru svo allt of einfaldar og því langar mig ekki til að kaupa þær. Það verður að vera eitthvað "challenge" í þeim.

Tuesday, November 9, 2010

Hringur

Mér datt í hug um daginn að hekla mér hring. Ég hef séð svo marga fallega heklaða hringi að ég varð að prufa. Ég notað frekar "villt" garn. Ég er hrifin af útkomunni. Ég er að hugsa um að kalla hann Villiblómavönd því einn mætur maður lýsit honum þannig að það væri eins og ég væri með villiblómavönd á fingrinum.
Það var mun auðveldara að gera hringinn en ég átti von á. Það var í rauninni mun erfiðar að ráða við garnið og finna lykkjurnar heldur en að hekla formið.

Ég er voða ánægð með hann og nota hann reglulega. Hann er frekar stór svo ég var að hugsa umað gera mér annan minni úr "rólegra" garni. (púff, ekki horfa á hendurnar, ég sé að ég þarf að fara að gera eitthvað við þær svo ég verði aðeins dömulegri)

Svona lítur hann út. Ég heklaði líka bandið utan um fingurinn í stað þess að setja hann á málmhring eins og ég hef séð gert við mörg blómin. Mér fannst þetta ágæt lausn sérstaklega þar sem átti engan hring að sauma blómið á og langaði að klára hann strax. Ekki mikil þolinmæði þegar verið er að hanna eitthvað fínerí og andinn kemur yfir mig.
Jólagjafirnar eru í fullri framleiðslu. Vonandi klárast þær allar fyrir jól og þá koma myndir.

Wednesday, November 3, 2010

Eitthvað flott

Ahhh, að eiga góða prjónatösku fulla af einhverju skemmtilegu er nauðsynlegt. Ég á tvær. Og fulla hillu, og nokkra poka, og fulla kistu og .... úff nú er ég að ganga fram af sjálfri mér. Ég held að áramótaheitið í ár ætti að vera að vinna úr birgðunum til að reyna að grynnka á þeim.

Freistingarnar eru bara svo margar. Ég segi alltaf ef einhver er hissa á öllu garninu sem ég á að það var eins gott að ég féll fyrir garni en ekki einhverju öðru eins og víni. Ég veit ekki hvar ég væri stödd þá. En ég held að ég sé eins og alki í vínbúð þegar ég fer í garnbúð, mig langar í allt og á ótrúlega eftitt með að velja og ekki að ræða það að labba út með ekkert í poka.

Þetta garn keypti ég í garnbúðinni í Hveragerði. Það er ótrúlega mjúkt og gott viðkomu og samt 100% ull. Unnur, sem er með mér í Prjónapínum, er búin að prjóna sjal úr sínu garni og það er svo mjúkt viðkomu að meira að segja ég gæti verið með það um hálsinn og ekkert á milli. Ég þarf að fara að prjóna eitthvað úr því. Þegar jólagjafirnar klárast....... vonandi fyrir miðnætti á Þorláksmessu........ og engir tveir eins vettlingar á vinstri........ og enginn á hægri!!!!